Fjalla um plastbarkamálið í næstu viku

20.03.2017 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekur plastbarkamálið til umfjöllunar í næstu viku. Áttundi sjúklingurinn, af níu, sem ítalski læknirinn Paolo Macchirarini græddi í plastbarka er nú látinn. Tveir íslenskir læknar aðstoðuðu við fyrstu plastbarkaígræðsluna. Ígræðslur Macchiarinis eru til rannsóknar í nokkrum löndum og í Svíþjóð er opinber rannsókn á því hvort læknirinn hafi gerst sekur um manndráp af gáleysi. Gert er ráð fyrir að þeirri rannsókn ljúki í sumar.

Tveir íslenskir læknar eru meðhöfundar, ásamt 26 öðrum læknum, að vísindagrein Macchiarinis þar sem fullyrt var að aðgerðin á Andermariam Beyene, sem var fyrstur til að fá plastbarka, hafi tekist vel. Þessar niðurstöður voru ekki í samræmi við niðurstöður rannsóknar á Andermariam á Landspítalanum nokkru áður sem sýndi bæði sveppa- og bakteríusýkingu í barkanum og gat á öndundarveginum inn í líkamann.

Í frétt á vef BBC eru taldar upp níu manneskjur sem fengu plastbarka ígrædda og eru þær allar látnar, fyrir utan eina, Dmitri Onogda. Hann var síðasti sjúklingur Macchiarinis sem fékk ígræddan plastbarka. Aðgerðin var á sjúkrahúsinu í Krasnodar í Rússlandi í júní 2014.
 
Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, fól stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að kanna hvort fela ætti óháðri rannsóknarnefnd til að skoða aðkomu Landspítalans og Háskóla Íslands að plastbarkamálinu. Nefnin lauk ekki umfjöllun sinni fyrir þinglok. Landspítalinn og Háskólinn settur sjálfir á laggirnar eigin rannsóknarnefnd undir forystu Páls Hreinssonar lögfræðings sem skila á niðurstöðu í lok maí. 

Brynjar Níelsson, þá fráfarandi varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í lok janúar að ekki væri nóg að Landspítalinn og Háskóli Íslands setttu á laggirnar rannsóknarnefnd til að skoða aðkomu sína að plastbarkaígræðslunni. Óháð rannsókn verði að fara fram. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagði í fréttum RÚV í janúar að mikilvægt væri að rannsaka plastbarkamálið til fulls. Hann vill að ný stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis beiti sér fyrir áframhaldandi rannsókn málsins. 

Brynjar er nú formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hann vildi ekki veita fréttastofu viðtal nú en segir að málið verði tekið til umræðu í nefndinni í næstu viku.