Fimm fórust í sjálfsmorðsárás í Bagdad

14.01.2018 - 06:23
Mynd með færslu
Þótt Íraksher hafi hrakið Íslamska ríkið frá öllum helstu vígjum þess í Írak og lýst yfir fullnaðarsigri í stríðinu við samtökin leynast vopnaðir hópar úr þessum illræmdu samtökum enn í landinu og öryggisgæsla er enn ströng í Bagdad  Mynd: EPA
Minnst fimm týndu lífi í sjálfsmorðssprengjuárás í Bagdad í gær og tíu særðust, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Árásin var gerð við vegartálma í norðurhluta íröksku höfuðborgarinnar. Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér en flestar árásir af þessu tagi sem gerðar hafa verið í Bagdad síðustu misseri eru raktar til liðsmanna Íslamska ríkisins.

Íraksstjórn lýsti reyndar yfir fullnaðarsigri í stríðinu við þau illræmdu hryðjuverkasamtök í desember síðastliðnum, eftir að hernum tókst að hrekja sveitir þeirra frá síðustu vígjum þeirra í landinu. Vitað er að litlir hópar þessara ofbeldismanna leynast enn hér og þar í landinu engu að síður, meðal annars í Bagdad. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV