Fimm dóu í óveðri í Norður-Póllandi

13.08.2017 - 02:27
Hamfarir · Evrópa · Pólland · Tékkland · Veður
epa06139810 Fallen trees in a forest after a storm nearby of Suszek village, northern Poland, 12 August 2017. Severe heavy storms passed over Poland causing damages to buildings, trees and electricity  infrastructure.  EPA/DOMINIK KULASZEWICZ POLAND OUT
 Mynd: EPA  -  PAP
Minnst fimm hafa týnt lífinu í ofsaveðri sem gekk yfir Pólland á laugardag. Auk þess slösuðust að minnsta kosti 34. Umtalsvert tjón varð á mannvirkjum og um 340.000 heimili voru án rafmagns lengi dags og eru mörg hver enn. Öll dauðsföllin urðu í Norður-Póllandi, nærri borginni Chojnice, og orsökin var sú sama í öllum tilfellum - stór og mikil tré rifnuðu upp með rótum í veðurhamnum og féllu á fólk.

Í skógi nærri Chojnice lést þrítugur maður þegar tré féll á tjald hans. Annað tré féll á tjaldbúðir skáta og varð tveimur unglingsstúlkum, 13 og 14 ára, að bana. 48 ára kona varð undir tré nærri þorpinu Zapora, skammt frá Chojnice, og lést, og í nærliggjandi borg, Konarzyny, lést kona á sextugsaldri þegar stórt tré féll á hús hennar með þeim afleiðingum að skorsteinninn hrundi á konuna. Talsmenn slökkviliðs og annarra björgunaraðila á svæðinu útiloka ekki að fleiri hafi farist í storminum, eyðileggingin sé svo mikil að yfirsýn vanti.

Óveðrið gerði líka mikinn usla í austurhluta Tékklands, þar sem minnst 80 byggingar skemmdust í rokinu og rafmagn fór af um 110.000 heimilum um hríð þegar skemmdir urðu á háspennulínum. Rafmagnsleysið raskaði einnig lestarsamgöngum í Tékklandi og sama var uppi á teningnum í vesturhluta Slóvakíu, þar sem hvort tveggja járnbrautir og hraðbrautir lokuðust vegna veðursins og ekki síst fallinna trjáa.

Óveður hefur geisað á þessum slóðum frá því um miðja viku, rifið þök af húsum og hrakið fjölda fólks frá heimilum sínum, þar sem húsin þykja líklegri til að hrynja en standa. Á fimmtudagskvöld ók hraðlestin milli Prag og Búdapest á heljarmikið tré, sem fallið hafði þvert yfir teinana nærri landamærum Tékklands og Slóvakíu. Enginn slasaðist alvarlega en loka þurfti þessari fjölförnu leið í margar klukkustundir á meðan brautin var rudd. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV