Ferðamaður týndist og fannst

12.08.2017 - 23:27
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Björgunarsveitir af Suðurlandi voru boðaðar út klukkan tíu í kvöld ásamt hópum af hálendisvakt í Landmannalaugum, vegna týnds ferðamanns á Heklu. Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að maðurinn hafi orðið viðskila við félaga sína þegar þeir gengu á Heklu fyrr í dag. Eftirgrennslan hófst fljótlega og hafði staðið um nokkra hríð áður en formleg leit hófst upp úr klukkan tíu. Maðurinn fannst svo um ellefuleytið, alheill og sprækur, þar sem hann var að húkka sér far á Landvegi, vestan Heklu.

Björgunarsveitarfólk sem var á leið í leitina kom manninum aftur til samferðafólks hans. Um fimmtíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum aðgerðum Landsbjargar og fleiri höfðu verið boðaðir út þegar maðurinn fannst. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV