Femínísk rokkeining byrjaði sem gjörningur

Dream Wife
 · 
Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Femínísk rokkeining byrjaði sem gjörningur

Dream Wife
 · 
Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
11.02.2018 - 11:40.Davíð Roach Gunnarsson.Lestin
Bresk-íslenska hljómsveitin Dream Wife gaf á dögunum út sína fyrstu breiðskífu sem er samnefnd sveitinni, eftir að hafa vakið mikla athygli í Bretlandi og víðar fyrir smáskífur sínar.

Dream Wife var stofnuð árið 2014 af söngkonunni Rakel Mjöll Leifsdóttur, gítarleikkonunni Alice Go og bassynjunni Bellu Podpadec sem kynntust í Listaháskóla í Brighton. Upphaflega komu þær saman út af skólaverkefni, stofnunin var eins konar gjörningar þar sem þær voru að leika hljómsveitina Dream Wife sem elskaði 10. áratuginn og dreymdi um að spila á opnun á listasýningu í Kanada. En fljótlega elti lífið listina og hljómsveitin hélt áfram eftir að gjörningnum lauk og spilaði á Iceland Airwaves hátíðinni og meira að segja í Kanada.

Það sem byrjaði í einhvers konar flippbríaríi hefur á þremur árum verið meitlað og yddað í samstillta rokkeiningu með femíníska sýn og þykkt og traust ættartré. Þær ættir má jafnvel rekja alveg aftur til stelpubanda fyrstu pönkbylgjunnar eins og hinnar goðsagnakenndu The Slits með söngkonuna Ari Up í broddi fylkingar.

Dream Wife á margt sameiginlegt með kvennarokksveitum frá upphafi tíunda áratugarins sem stundum hafa verið kenndar við Riot grrrl hreyfinguna, hljómsveitir eins og Sleater-Kinney og Bikini Kill sem sungu um málefni eins og nauðgunarmenningu, heimilisofbeldi, rasisma, feðraveldi, kynferði og kvennaeflingu.

Beittir önglar

En á Dream Wife eru stelpurnar ekki bara hráar, pönkaðar og reiðar heldur líka grípandi og aðgengilegar; og sækja ýmislegt í kraftpopprokk Breeders,en ekki síst hinar svokölluðu „The“ sveitir sem vinsælar voru í upphafi 10 áratugarins, raddbeiting Rakelar minnir til að mynda talsvert á Karen O úr Yeah Yeah Yeahs í upphafslaginu. Þrátt fyrir hráan og rokkaðan hljóminn eru lagasmíðar poppaðar og viðlögin með beittum önglum.

Svo eru svona smáatriði lítil atriði eins og bakraddirnar í „Fire“, klappið í „Hey Heartbreaker“, snaggarlegt grúvið í „Taste“ og 60's stelpuhljómsveitar ú-in í „Let's Make Out“ gera það að verkum að lögin gætu nátt til víðari hlustendahóps en maður hefði haldið í fyrstu. Margt í lagasmíðum, gítarslaufum og hljómi minnir mig svo á eina allra bestu rokksveit 20. aldarinnar, The Strokes, en þó með afar hressandi estrógen-innspýtingu. Í textunum er oft á tíðum töffaralegur galsi og sterk og örugg kynvitund.

Hvetja stelpur til að taka pláss

En það er einnig snert á erfiðum málefnum eins og kynferðisofbeldi og stöðu kvenna í samtímanum. Í viðtali við DV á dögunum sagði söngkonan Rakel Mjöll að í upphafi ferilsins hafi þær farið á marga fundi þar sem þær kynntust gamaldags og karlrembulegri sýn tónlistarheimsins. Þá hafi stelpurnar líka lagt sérstaka áherslu á að bjóða ungar stelpur velkomnar á tónleika hjá sér og hvatt þær til að taka pláss, auk þess að vinna með samtökunum Girls Against í vitundarvakningu um kynferðisáreitni á tónleikastöðum. Þetta heyrist líklega hvað best í laginu „Somebody“ sem fjallar um kynferðisofbeldi og eignarrétt kvenna –eða öllu heldur skortinn á honum– á eigin líkömum, þar sem Rakel syngur „I am not my body, I am somebody.“

Dream Wife rötuðu á forsíðu hins virta tónlistarblaðs NME um daginn þar sem sveitin var sögð ein þeirra sem myndu „eiga“ árið 2018. Í fimm stjörnu dómi í blaðinu segir meðal annars um breiðskífuna: „ekki síðan Yeah Yeah Yeahs komu fram á sjónarsviðið í flóðbylgju af netasokkabuxum og glimmeri hefur pönkrokk verið jafn hreint út sagt skemmtilegt“. Platan kom út seint í janúar og hefur þegar verið rýnd á mörgum virtum miðlum, þar á meðal  Pitchfork, og er á þessari stundu með tæplega 8 í einkunn á síðunni metacritic sem safnar saman dómum og reiknar meðaltalseinkunn. Á Allmusic.com segir að platan sé ofsafengin frumraun með oddhvössum gítar-riffum og ómótstæðilegum sjarma, og Drowned in Sound segja hana fullkomlega fanga orkuna á tónleikum sveitarinnar, er einmitt núna stödd á tónleikaferðalagi til að fylgja eftir plötunni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Django Django gera meira meira

Tónlist

Norðmennirnir sem flugu með diskóið út í geim

Tónlist

Stígur skrefið til fulls úr skugga föður síns

Popptónlist

Óðurinn til letinnar – stundum sit ég bara