Fé fyrir þjóðgarðsmiðstöð eftir 12 ára bið

08.01.2018 - 16:34
Mynd með færslu
Frumhönnun þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi  Mynd: ArkÍs  -  Umhverfisstofnun
Við afgreiðslu fjárlaga 2018 var samþykkt að veita 150 milljónum króna í þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi en ekki hafði verið gert ráð fyrir fjármagni til þjóðgarðsmiðstöðvarinnar í fjárlögum fyrr en eftir breytingartillögu Fjárlaganefndar. Sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að nú þurfi bara hnýta lausa enda og hefja framkvæmdir. Nær 12 ár eru síðan að boðað var til hönnunarsamkeppni um húsið.

 

Vilja hefja framkvæmdir sem fyrst

Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá hjá Umhverfisstofnun, segir fjárveitinguna  gleðifréttir og að nú verði kapp lagt á að hnýta lausa enda svo að framkvæmdir geti hafist sem fyrst. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur yfirumsjón með verkinu en heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 380 milljónir króna. 

Lengi í bígerð

Boðað var til hönnunarsamkeppni árið 2006. Árið 2013 var þjóðgarðsmiðstöðinni úthlutaðar 75 milljónir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en ekki tókst að fá mótframlag. Í fjárlögum fyrir árið 2016 var byggingunni úthlutað 50 milljónum og í ágúst 2016 var tekin fyrsta skóflustungan. Í fjárlögum fyrir árið 2017 var 150 milljónum úthlutað til verkefnisins en ekki leit út fyrir að fjármagni yrði úthlutað til miðstöðvarinnar árið 2018 fyrr en eftir breytingartillögu Fjárlaganefndar.

Gestum fjölgað í þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Þjóðgarðsmiðstöðin á að sinna náttúruvernd, móttöku gesta, upplýsingagjöf, rannsóknum og fræðslu. Með nýrri þjóðgarðsmiðstöð verður hægt að taka á móti gestum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls við báða innganga þjóðgarðsins, á Hellissandi og á Malarrifi. Gestastofa á Malarrifi opnaði á síðasta ári. Á Facebook síðu Snæfellsbæjar segir að mikilvægt sé fyrir svæðið að þjóðgarðurinn Snæfellsjökull fái eigið húsnæði undir starfsemi sína. Þar verður aðstaða fyrir sýningar og kynningarmál þjóðgarðsins sem og aðstaða fyrir starfsfólk. Umferð um þjóðgarðinn hefur aukist mikið og var nýlega greint frá því að gestum þjóðgarðins hefur fjölgað um nær 27% milli áranna 2016 og 2017. Þá hefur gestum í gestastofunni fjölgað um 21% milli ára.

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV