Fastur í þrjá daga í 7300 metra hæð

14.07.2017 - 11:57
„Hætturnar sem þarna geta leynst eru náttúrulega gígantískar,“ segir Árni Eðvaldsson fjallgöngumaður sem árið 2012 reyndi að klífa fjallið Broad Peak eða K3 í Karakorum-fjallgarðinum á landamærum Pakistan og Kína. Það er næsta fjall við K2, næsthæsta fjall heims, sem John Snorri Sigurjónsson gerir nú atlögu að, fyrstur íslenskra fjallgöngumanna.

Rætt var við Árna um Karakorum-fjallgarðinn og háfjallamennsku í Morgunvaktinni á Rás 1. 

Óskiljanlegt af ljósmyndum

K2 er gjarnan kallað eitt torkleifasta og hættulegasta fjall heims. Aðeins um 300 manns hafa náð tindi þess, en 77 látið lífið við að reyna það. K2 er 8611 metra hátt — næsthæsta fjall heims á eftir Everest. Næsta fjall, K3 eða Broad Peak, er 8051 metra hátt og því tólfta hæsta fjall heims.

Í nágrenninu, Karakorum-fjallgarðinum, er svo fjöldi annarra hárra fjalla, og Árni segir erfitt að lýsa umhverfinu sem þar blasir við. 

„Við eigum tíguleg fjöll hér á Íslandi, eins og Hraundranga í Öxnadal — okkur þykir hann náttúrulega fallegur, en þarna eru tíguleg fjöll í þúsunda tali,“ segir Árni.

„Að reyna upplifa þetta svæði á myndum en það er bara ekki sambærilegt við að koma þarna. Myndirnar gefa ekki rétta mynd af þessu, maður skilur þetta ekki. Eina leiðin til að upplifa þetta er að fara sjálfur á þetta svæði.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
K2.

Drunur í snjóflóðum í næsta gili

Það gerði Árni, sem gekk á Broad Peak að loknum fjögurra ára undirbúningi sumarið 2012. Þó Broad Peak sé ekki álitið eins hættulegt fjall og K2 er ýmislegt sem þarf að varast. 

„Menn vanmeta þessi fjöll. Þetta eru óblíð náttúruöfl og mikið af snjóflóðum,“ segir Árni. Hann kleif aðallega að nóttu til og vildi vera kominn á öruggan stað þegar sólin byrjaði að skína á fjallshlíðina að morgni.

„Þá var bara eins og fjandinn væri laus,“ segir Árni. „Þá byrjuðu bara snjóflóð allt í kringum mann. Maður heyrði drunurnar og lætin í þeim í næsta gili.“

Fastur í tjaldbúðum í þrjá daga

Til að komast hjá snjóflóðum er gjarnan klifið eftir hryggjum, en þá eru göngumenn á móti berskjaldaðari gegn veðrum og vindum. Það var einmitt veðrið sem kom í veg fyrir að Árni næði á tind Broad Peak. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Breiðtindur.

Hann festist í þriðju búðum á fjallinu í um 7300 metra hæð, þegar gerði vont veður. 

„Það var komið brjálað veður og blindbylur og maður sá bara ekki neitt. Ég ætlaði varla að finna búðirnar, og var bara einn orðinn, allir félagarnir horfnir.“

Árna tókst að lokum að finna búðirnar og var þar í þrjá daga áður en hann gat loks komist niður af fjallinu. Svipaðar sögur er að segja af fjallgöngumönnum á K2 sem fests hafa í tjaldbúðum dögum saman vegna veðurs, segir Árni. 

Hlustið á allt viðtalið við Árna í spilaranum hér að ofan, en hann segir einnig meðal annars frá jakuxakjöti, misjöfnum aðstoðarmönnum og fleiru.

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi