Færri andstæðingum sleppt en var lofað

25.12.2017 - 06:50
epa06404405 A group of relatives of persons in prison gather in the vicinity of 'El Helicoide', headquarters of the Bolivarian National Intelligence Service (SEBIN) in Caracas, Venezuela, 23 December 2017. The release of a group of people
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Innan við helmingi þeirra 80 fanga sem stjórnlagaþing Venesúela vildi láta lausa fyrir jól hefur verið sleppt. Talsmaður mannréttindasamtaka í landinu segir 36 hafa verið leysta úr haldi í gær.

Delcy Rodriguez, forseti stjórnlagaráðs Venesúela og formaður sannleiksnefndar sem rannsakar mótmæli stjórnarandstæðinga í landinu, tilkynnti í gær að ráðið hafi samþykkt að leysa 80 fanga úr haldi. Jólin væru rétti tíminn til að rétta fram sáttarhönd til þeirra sem kröfðust þess að Nicolas Maduro forseta yrði steypt af stóli.

Mótmæli gegn Maduro hófust 2014 þegar fór að síga á ógæfuhliðina í efnahag landsins. Þetta áður auðuga olíuríki er nú á heljarþröm og fylktust stjórnarandstæðingar og almennir borgarar á götur borga Venesúela til þess að krefjast afsagnar Maduros. 43 létust í átökum mótmælenda og öryggissveita árið 2014. Síðan hafa mótmælin stigmagnast, en fyrr á þessu ári létust 125 í mótmælum.

AFP fréttastofan hefur eftir Alfredo Ramos, einum fanganna sem var sleppt og borgarstjóra Irribarren í norðvestanverðu landinu, að hann sé ánægður með nýfengið frelsi. Hins vegar hafi fangelsisvistin verið óréttlát, hann hafi ekki framið neinn glæp.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV