Færð gæti spillst með kvöldinu

13.01.2018 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir  -  RÚV
Færð gæti spillst sunnan- og vestanlands í kvöld og nótt en smálægðir herja nú á landið. Fram undan er hins vegar norðanátt og kuldi. Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að úrkomusvæði séu að leið upp að Suður- og Vesturlandi í kvöld. „Líklega mun fylgja því talsverð slydda og rigning á láglendi sunnanlands og snjókoma inn til landsins og síðan fer þessi lægð líklega yfir norðanvert landið einnig, þannig að þar mun hvessa og snjóa upp úr miðnætti,“ segir hann.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Suður- og Vesturland og höfuðborgarsvæðið og segir Þorsteinn að það sé sérstaklega fyrir fjallvegi. Áfram er von á rysjóttu veðri. Spáð er norðanátt eftir helgi, snjókomu fyrir norðan og gengur á með éljum þar. Lengst af verður þó bjart fyrir sunnan og vestan.
 

 

Mynd með færslu
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður