Fær eins leiks bann fyrir „punghöggið“

14.02.2018 - 16:15
Jóhann Birgir Ingvarsson, leikmaður karlaliðs FH í handbolta, hefur verið dæmdur í eins leiks bann af aganefnd HSÍ fyrir „punghöggið“ umrædda í leik FH og Fram í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins.

Jóhann Birgir sló til Svans Páls Vilhjálmssonar, leikmanns Fram, að því er virðist að tilefnislausu en atvikið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Afar sjaldgæft er að dæmt sé eftir myndbandsupptökum en aganefnd HSÍ hefur þó dæmt Jóhann Birgi í eins leiks bann fyrir athæfi sitt. 

Í úrskurðinum segir:

Stjórn HSÍ hefur vísað til aganefndar í samræmi við 6.kafla „Reglugerðar HSÍ um agamál atviki sem kom upp í leik FH og Fram í bikarkeppni mfl. ka. 8. feb. 2018. Jafnframt hefur aganefnd kynnt sér upptöku af atvikinu í samræmi við 5.gr. fyrrgreindrar reglugerðar. Aðilum málsins sem og dómurum hefur verið gefinn kostur á að skila inn greinargerð. Í greinargerð dómara kemur fram að hvorki þeir né eftirlitsmaður sáu atvikið. Greinargerð barst jafnframt frá FH. Af upptöku frá leiknum er ljóst að atvikið var með þeim hætti að eftir að hafa skorað mark og á leið í vörn slær Jóhann Birgir Ingvarsson leikmaður FH með hendi milli fóta leikmanns Fram og liggur hann óvígur eftir. Þó höggið virðist ekki hafa verið þungt er ljóst að leikmaðurinn sló annan leikmann af ásetningi og afleiðingar urðu allnokkrar. Niðurstaða aganefndar er að Jóhann Birgir Ingvarsson leikmaður FH er úrskurðaður í eins leiks bann.

Jóhann Birgir tekur leikbannið út í næstu umferð Olís-deildarinnar en þá mæta FH-ingar Íslandsmeisturum Vals í Kapakrika. 

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður