Fá upplýsingar úr sakaskrá allra þjálfara

13.01.2018 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: Christopher Bruno  -  Wikimedia Commons
HK hefur ekki ráðið neinn þjálfara eða starfsmann undanfarin tíu ár án þess að fá fyrst samþykkti til að óska eftir upplýsingum úr sakaskrá. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef félagsins. Fólki hefur verið vikið úr störfum fyrir félagið vegna brota á siðareglum.

Vinna við siðareglur HK hófst fyrir tíu árum. Síðan þá hafa allir þjálfarar, starfsmenn og leikmenn þurft að skrifa undir samning þess efnis að hafa kynnt sér siðareglur félagsins og framfylgja þeim í einu og öllu. Í tilkynningunni segir að félagið fagni þeirri umræðu sem fylgt hefur #metoo-byltingunni og harmi mjög að einstaklingar innan íþróttahreyfingarinnar hafi þurft að þola ofbeldi í íþróttastarfi.

„Félagið hefur þurft að beita viðurlögum vegna óviðeigandi hegðunar og brota á siðareglum og er unnið eftir skýrum verkferlum ef slík mál koma upp. Hefur þeim aðilum sem brotið hafa af sér verið vísað frá félaginu,“ segir í tilkynningunni. Öllum þjálfurum og starfsmönnum HK er skylt að mæta árlega á námskeið um forvarnir og viðbrögð við kynferðislegri misnotkun á börnum.

Árlega býður HK upp á fræðslu í forvörnum og viðbrögðum við kynferðislegri misnotkun á börnum og eru allir þjálfarar og starfsmenn félagsins skyldugir til að sitja.