Fá greitt fyrir húsnæði, flug og bíla

12.02.2018 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir  -  RÚV
Þrír af hverjum fjórum þingmönnum fá álagsgreiðslur ofan á laun sín, sem nema frá 55 þúsund krónum á mánuði upp í ráðherralaun. Aðeins fimmtán af 63 þingmönnum á Alþingi eru með berstrípað þingfararkaup. Þá eru ekki taldar með fastar starfskostnaðar- og ferðakostnaðargreiðslur, húsnæðis- og dvalarstyrkur og ýmisleg ferðahlunnindi á borð við flug og bílaleigubíla á kostnað þingsins. Þær greiðslur og hlunnindi geta hlaupið á hundruðum þúsunda króna í hverjum mánuði.

Umræða um endurgreiðslur Alþingis vegna aksturskostnaðar Ásmundar Friðrikssonar á síðasta ári hefur beint kastljósinu á ný að launakjörum þingmanna. Sú umræða snýr að rétti þingmanna til að fá endurgreiddan ferðakostnað vegna starfa sinna. Í tilfelli Ásmundar nam upphæðin 4,6 milljónum króna í fyrra, um fimmtán prósentum af 30 milljóna króna heildarendurgreiðslum Alþingis vegna aksturskostnaðar þingmanna. Þrír þingmenn fengu meira en þrjár milljónir endurgreiddar og sjö til viðbótar milljón eða meira. Það segir þó ekki alla söguna því þingmenn geta flogið á kostnað þingsins og nýtt sér bílaleigubíla.

Margvíslegar álagsgreiðslur

Þingmenn geta fengið margvíslegar álagsgreiðslur vegna starfa sinna. Hæsta greiðslu fær forseti Alþingis, sem er á ráðherralaunum, 1.826.273 krónum á mánuði. Það er tveimur þriðju meira en sem nemur þingfararkaupi.

Næst hæstu álagsgreiðslurnar eru þær sem formenn stjórnmálaflokka fá ef þeir sitja ekki í ríkisstjórn. Þeir fá 50 prósenta álag ofan á þingfararkaupið, 551 þúsund krónur á mánuði. Í dag má gera ráð fyrir að fjórir flokksformenn fái slíka álagsgreiðslu, það er að segja formenn annarra stjórnarandstöðuflokka en Pírata - sem hafa ekki formann. Þessar álagsgreiðslur bættust við árið 2003 samhliða því að eftirlaunum ráðherra og þingmanna var breytt. Þær voru rökstuddar með því að jafna ætti aðstöðumun formanna stjórnarandstöðuflokka og formanna stjórnarflokka sem alla jafna voru á ráðherralaunum.

Þriðji hver þingmaður, 21 af 63, á svo rétt á fimmtán prósenta álagi á þingfararkaupið, 165 þúsund krónur á mánuði. Það eru þeir þingmenn sem eru varaforsetar Alþingis, þingflokksformenn og formenn fastanefnda Alþingis. 21 þingmaður gegnir slíku embætti nú um stundir.

Varaformenn fastanefnda Alþingis fá tíu prósenta álag á þingfararkaupið, 110 þúsund krónur á mánuði, og varaformenn nefnda fá fimm prósenta álag, 55 þúsund krónur á mánuði.

Ofan á þetta bætist að níu þingmenn eru ráðherrar, og þar með á ráðherralaunum upp á 1.826 þúsund krónur á mánuði, og einn forsætisráðherra með 2.022 þúsund krónur á mánuði.

Eftir standa því fimmtán þingmenn sem ekki fá álagsgreiðslur á þingfararkaup sitt.

Fjórir þingmenn eiga rétt á álagsgreiðslum samkvæmt tveimur aukastörfum sínum en þá fellur önnur greiðslan niður. Þannig eru til dæmis tveir formenn stjórnarandstöðuflokka varaformenn í nefndum og fellur þá lægri greiðslan niður.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Lækkaðar vegna launahækkana

Þessu til viðbótar eiga allir þingmenn rétt á tveimur föstum mánaðarlegum greiðslum. Önnur er vegna starfskostnaðar og hljóðar upp á 40 þúsund krónur. Hin er upp á 30 þúsund krónur vegna fasts ferðakostnaðar. Ekki þarf að sýna fram á útlagðan kostnað til að fá þessar greiðslur, en þingmenn geta þó beðist undan greiðslunni. Þingmenn verða þó að greiða skatt af starfskostnaðargreiðslunum ef þeir framvísa ekki reikningum vegna útlagðs kostnaðar.

Þessar greiðslur voru lækkaðar í desember árið 2016. Það gerði þingið til að bregðast við harðri gagnrýni sem það varð fyrir vegna mikilla launahækkana þingmanna á kjördag það ár.

Ferðakostnaðargreiðslurnar námu 84 þúsund krónum á mánuði fyrir þessa ákvörðun, og voru þá eins og nú skattfrjálsar. Starfskostnaðargreiðslurnar námu 90 þúsund krónum. Samanlagt lækkuðu greiðslurnar því um 104 þúsund krónur á mánuði, sem var metið til 150 þúsund króna lækkunar að teknu tilliti til þess að greiðslurnar voru skattfrjálsar.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV

Gátu tvöfaldað launin

Fyrir launahækkun þingmanna og ráðherra 2016 og lækkun fastra ferða- og starfskostnaðargreiðslna sama ár gátu aukagreiðslur tvöfaldað það sem þingmaður fékk frá þinginu um hver mánaðamót.

Þannig gat þingmaður sem var formaður stjórnmálaflokks, en ekki ráðherra, sem hélt heimili bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi fengið hærri álags- og starfstengdar greiðslur en sem nam þingfararkaupinu árið 2015.

Þá hljóðaði þingfararkaupið upp á 651.446 krónur. Formaður flokks fékk 325.723 króna formannsálag. Eins og aðrir þingmenn hefði hann átt rétt á 167.800 króna starfs- og ferðakostnaðargreiðslum. Og eins og þeir landsbyggðarþingmenn sem halda tvö heimili hefði viðkomandi átt rétt á 180.320 krónum í húsnæðis- og dvalarkostnað. Þannig hefðu aukagreiðslurnar hljóðað upp á 673.843 krónur, og verið rúmlega 20 þúsund krónum hærri en þingfararkaupið.

Slík dæmi eru fátíð. En flestir þingmenn fá einhverjar aukagreiðslur. Þannig fengu allir þingmenn nema þrír fastar starfskostnaðargreiðslur þegar fréttastofa leitaði upplýsinga um slíkt snemma árs 2015. Þeir þrír sem völdu að fá ekki fastar starfskostnaðargreiðslur gátu þá framvísað reikningum og fengið útlagðan starfskostnað endurgreiddan.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is

Fá greitt fyrir húsnæði, flug og bílaleigubíl

Síðustu daga eru það þó óreglulegu greiðslurnar en ekki þær reglulegu sem hafa verið í brennidepli. Þær eru hugsaðar til að jafna stöðu þingmanna eftir búsetu og kjördæmum. Bæði er það þannig að sumir þingmenn búa fjarri þinghúsinu í Reykjavík og eins eru kjördæmi margra stór og kalla á mikil ferðalög ef þingmenn vilja vera í sambandi við kjósendur.

Allir þingmenn fá 30 þúsund króna fasta greiðslu á mánuði sem á að standa undir ferðakostnaði í næsta nágrenni heimilis eða starfsstöðvar auk dvalarkostnaðar á ferðalögum í kjördæmi. Þetta er þó aðeins hluti kostnaðarins því endurgreiða á ferðakostnað innan kjördæmis fyrir ferðir á fundi eða samkomur sem þingmaður boðar til eða er boðaður á, þó að því gefnu að fjarlægðin sé minnst fimmtán kílómetrar hvora leið. Að auki má endurgreiða gistikostnað þegar sérstaklega stendur á.

Þingmaður sem heldur tvö heimili og ferðast milli þeirra vikulega yfir þingtímann á rétt á húsnæðis- og dvalarkostnaði, sem fyrr segir. Að auki eru flugmiðarnir greiddir af þinginu og þingmaðurinn á rétt á bílaleigubíl í Reykjavík. Þingmaðurinn greiðir þá aðeins eldsneytiskostnað.

Þingmaður sem býr utan höfuðborgarsvæðisins og heldur aðeins heimili í kjördæmi sínu á rétt á að fá endurgreiddar daglegar ferðir milli heimilis og Alþingis yfir þingtímann. Hann á líka rétt á að fá endurgreiddar ferðir á fundi sem hann er boðaður á í Reykjavík sem og ferðir í önnur kjördæmi en sitt eigið.

Samkvæmt reglum Alþingis á að velja hagkvæmasta ferðamátann þegar því verður við komið. Það þýðir að þingið getur valið að borga flugmiða fyrir þingmann frekar en að endurgreiða honum eftir akstursdagbók, þar sem því verður komið. Að auki á þingmaður að fá bílaleigubíl á kostnað Alþingis frekar en að aka meira en fimmtán þúsund kílómetra á ári, þar sem það þykir hagstæðara.