Eru jólin einn stór misskilningur?

Pistlar
 · 
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
 · 
Menningarefni
 · 
Trúarbrögð
 · 
Víðsjá

Eru jólin einn stór misskilningur?

Pistlar
 · 
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
 · 
Menningarefni
 · 
Trúarbrögð
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
20.12.2017 - 19:28.Vefritstjórn.Víðsjá
Pistill eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur þar sem hún rekur sögu jólahalds og hugmyndafræði sólstöðuhátíða. „Saga hátíðarinnar er svo löng og snúin að segja má að jólin séu í senn einn stór hugmyndafræðilegur misskilningur og óhjákvæmilegt náttúrulögmál,“ segir hún.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:

Nú er hafin síðasta vika aðventunnar og jólin rétt handan við hornið. Þau hafa fyrir mörgum áratugum fest sig í sessi sem stærsta hátíð Vesturlanda nútímans en jafnframt hafa kviknað ýmsar deilur um merkingu þeirra og innihald. Eru jólin fyrir alla eða ber að halda þau hátíðleg á einn og sama háttinn? Eru þau fyrst og fremst kristin trúarhátíð, sólstöðuhátíð með heiðnar rætur eða útvötnuð afurð kapítalismans? Þegar deilt er um eðli jólanna með þessum hætti vilja allir deiluaðilar gjarnan rökstyðja mál sitt með sögulegum dæmum en það er hægara sagt en gert. Saga hátíðarinnar er svo löng og snúin að segja má að jólin séu í senn einn stór hugmyndafræðilegur misskilningur og óhjákvæmilegt náttúrulögmál.

Flóð í ánni Níl, sólstöðuhátíð og afmæli Jesú

Í upphafi kristindóms hafði enginn nokkurn minnsta áhuga á því hvenær Jesús hefði fæðst. Hið mikilvæga var hvenær hann dó og reis upp til himna, þegar hans raunverulega líf hófst. Af trúarlegum ástæðum höfðu kristnir söfnuðir miklu meiri áhuga á dánardögum en fæðingardögum en að baki því lágu líka praktískar ástæður. Við fæðingu barns var erfitt að segja til um hvort líf þess yrði sérstaklega langt eða merkilegt. Þeir einu sem voru svo hofmóðugir að láta fagna afmælisdegi sínum á hverju ári voru þeir sem tróndu efst á toppi samfélagsins, eins og rómverski keisarinn.

Eftir því sem tíminn leið, kristni festi rætur og fólk hætti að bíða með öndina í hálsinum eftir dómsdegi fór hugur margra hins vegar að hvarfla að ýmsu léttmeti, eins og því hvenær Jesús hefði átt afmæli. Meira en hundrað ár voru liðin frá fæðingunni og í raun ómögulegt um það að segja, en fyrsta gisk féll á 6. janúar. Þar kann að hafa skipt máli að sú niðurstaða kom frá kristnum söfnuði í Alexandríu en 6. janúar hafði öldum saman verið stórhátíð í Egyptalandi sem tengdist Ósirísardýrkun og flóðum í ánni Níl. Þegar kristni varð að ríkistrú í Róm var dagsetningunni nokkuð fyrirhafnarlítið breytt í 25. desember, til að falla að velþekktri sólstöðuhátíð.

Þrír helgidagar verða til

Þegar kristni breiddist út um Evrópu mætti hún fyrir svipuðum skammdegishátíðum. Norræna orðið jól er til dæmis mjög gamalt og einn helsti vitnisburðurinn um að hátíðin sé eldri en kristnin. Því miður veit enginn hvað orðið þýðir í raun og veru og ólíklegt að það uppgötvist úr þessu. Hin heiðna norræna jólahátíð var líklega lausari í reipunum en þau hátíðahöld sem Rómarveldi og síðar kaþólska kirkjan stóðu fyrir. Dagsetning þeirra hefur ekki verið jafn föst í skorðum og merkingin líklega ekki heldur, í raun er alls óvíst að jólin hafi tengst sérstökum átrúnaði. Þetta var góður tími til að halda veislur og gera vel við sig en þarf ekki að hafa haft mikla merkingu umfram það.

Sumardagurinn fyrsti á líklega frekar skilið þann heiður að vera hin upprunalega íslenska stórhátið en með tíðasöng og tilkomumiklu messuhaldi fór 25. desember að sækja á og rændi sumardaginn fyrsta meðal annars þeim sessi að vera fyrsti dagur nýja ársins. Á Íslandi á miðöldum hófst guðsþjónustan klukkan sex á aðfangadagskvöld en mikilvægust var miðnæturmessan. Aðrir mikilvægir dagar voru áttundi dagur jóla og þrettándinn. Ef 25. desember hafði hlotið þann sess að vera fæðingardagur frelsarans vegna eintómrar hentisemi Rómarveldis, þá er ástæðan fyrir helgi þessara tveggja daga, 1. janúar og 6. janúar, ennþá langsóttari.

Hinn tilviljanakenndi nýársdagur

Í trúarbrögðum gyðinga var hefð fyrir því að stórhátíðir stæðu í 8 daga og síðasti dagurinn væri nærri því jafn merkilegur og sá fyrsti. Þessi sýn virðist hafa slæðst yfir í kristni auk þess sem Evrópubúar tóku af einhverjum ástæðum upp á því á 11. öld að trúa því að 1. janúar hefði verið dagurinn sem Jesú var umskorinn. Þó umskurður hafi aldrei verið iðkaður á Íslandi þá stöðvaði það ekki landsmenn í því að minnast þessa merka atburðar í sálmasöng og predikunum þann 1. janúar.

Í örfáum löndum Evrópu var þessi dagur líka álitinn fyrsti dagur ársins og íslenskir biskupar ákváðu á 16. öld að svo ætti líka að vera á Íslandi, líklega vegna þýskra áhrifa. Fyrsti dagur ársins á Íslandi hafði því í tímans rás færst frá sumardeginum fyrsta yfir á 25. desember og loks 1. janúar. Vorum við þar langt á undan okkar samtíma, því bæði enska, danska og sænska konungsríkið gerðu daginn ekki að nýjársdegi fyrr en á 18. öld. Þetta hefur örugglega verið mjög ruglandi fyrir flesta Íslendinga og því er oft erfitt að greina á milli jóla og áramóta í gömlum heimildum.

Hin mörgu andlit þrettándans

6. janúar, hin forna egypska Nílarhátíð, hélt sessi sínum í miðaldakristni þrátt fyrir að rómverska ríkið rændi fæðingu Jesúbarnsins af dagsetningunni. Í staðinn varð dagurinn helgaður heimsókn vitringanna þriggja og varð sem slíkur einn af merkilegustu helgidögum miðaldakristni. Ef hinn nýi nýársdagur hafði ruglað Íslendinga á 16. öld í ríminu þá keyrði um þverbak í upphafi 18. aldar þegar 11 dagar voru klipptir burt úr dagatalinu, til að leiðrétta uppbyggða skekkju úr júlíanska tímatalinu. Jóladag bar skyndilega upp nærri tveimur vikum fyrr. Það sem hafði áður verið 25. desember var nú 5. janúar og nálægðin við þrettándann gerði þetta enn ruglingslegra svo sumir fóru að kalla þrettándann jólanóttina gömlu.

Hinir þrír stóru hátíðisdagar, 25. desember, 1. janúar og 6. janúar, höfðu sumsé um aldir skipt með sér verkum í Evrópu sem sólstöðuhátíð, fæðingardagur Jesúbarnsins og nýársdagur, auk sértækari hlutverka á borð við dag umskurðarins og vitringaheimsóknarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart bættust svo við þessar lærðu tímatalskúnstir til þess að rugla íslenskan almenning enn frekar. Það er því ekki að furða að jólanótt, nýjarsnótt og þrettándinn gegni allar mjög svipuðu hlutverki í íslenskri þjóðtrú. Að einhverju leyti má segja að þetta sé sama nóttin sem beri upp á þremur mismunandi dagsetningum.

Jólin, hátíð myrkravera

Og hvað er það sem einkennir þessa þríeinu nótt? Jú, þá eru skilin á milli þessa heims og annars þynnri og mannfólk jafnt sem aðrar verur geta flakkað þar á milli. Þá er mikil hætta á ferðum en jafnframt til mikils að vinna, fyrir þá sem vita sínu viti. Í heildina eru þessar nætur fjórar á árinu og þá fjórðu ber upp á annarri sólstöðuhátíð sem með kristni varð einnig tileinkuð fæðingardegi dýrlings, Jónsmessu. Sú nótt felur í sér svipuð tækifæri til dulrænna athafna en af ýmsum ástæðum varð Jónsmessa aldrei jafn mikilvæg á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Þar skiptir líklega einna mestu að myrkur hefur mjög lífleg áhrif á ímyndunaraflið og af því er frekar lítið í júnílok á Íslandi. Engu að síður tókst sögum af Jónsmessufurðum að tóra í íslenskri þjóðtrú, sem segir okkur sitthvað um þau áhrif sem sólstöður hafa á mannssálina.

Hvort þetta sé til vitnis um eldfornan uppruna hátíðanna eða sammannlega og tímalausa upplifun er ómögulegt að segja en segja má að jólunum takist að sprengja utan af sér flestar skilgreiningar. Jólin eru því kannski tími til að standa á krossgötum í myrkri, bíða og hlusta. Kannski heyrum við kýrnar tala, föngum sel í mannslíki, þiggjum gjafir frá huldufólki, semjum við tröll eða heyrum spásagnir látinna ættingja. Allt gæti þetta svipt okkur vitinu, rétt eins og myrkrið og kuldinn gæti svipt okkur lífinu en handan við hornið er rísandi sól og lengri dagur.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Gjaldmiðill, geðlyf og góðgæti Íslendinga

Menningarefni

Niður með aristókratana!

Íslenskt mál

„Gvöð hvað mér brá“

Menningarefni

Háskóladeilan sem umbylti Evrópu