Enn lengist fjarvera ferjunnar Baldurs

03.01.2018 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RÚV
Ljóst er að ferjan Baldur verður lengur frá en áætlað var í fyrstu. Nú er áætlað að ferjan hefji siglingar í um 20. janúar en siglingar ferjunnar hafa legið niðri frá því að bilun kom upp í vél skipsins. Framkvæmdastjóri fiskvinnslu og útgerðar á Patreksfirði segir að erfiðasti mánuðurinn til flutninga sé framundan og hann hefur miklar áhyggjur af ástandinu.

Verið að setja vélina saman

Baldur hefur ekki siglt yfir Breiðafjörð frá 18. nóvember, þegar í ljós kom bilun í aðalvél. Stefnt var á að hefja siglingar að nýju í byrjun janúar en nú er ljóst að ekki verður af því. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir að það hafi þurft að endurnýja hluta vélarinnar, sem er í viðgerð í Garðabæ, og að samsetningu sé ekki lokið. Stefnt er að því að senda vélina vestur í Stykkishólm á mánudag og þá tekur við um það bil 10 daga stillitími. Gunnlaugur segir að Baldur fari því ekki sigla fyrr en um 18-20. janúar. Hann segir það skelfilega stöðu að geta ekki sinnt þjónustunni sem þeim ber að veita.

Samningur við Vegagerðina um Baldur

Vegagerðin styrkir siglingar Baldurs átta mánuði ársins vegna bágs ástands vega á sunnanverðum Vestfjörðum og hefur í fjarveru Baldurs bætt þjónustuna á þeirri leið. Í fjarveru Baldurs fá Sæferðir fastagreiðslu frá Vegagerðinni en þó ekki fulla greiðslu en ber ekki, samkvæmt samningum við Vegagerðina, að útvega varaskip til að sigla í Brjánslæk í fjarveru Baldurs. Framkvæmdastjóri Sæferða hefur greint frá því að of dýrt sé að fá varaskip. Sæferðir þurfa þó að þjónusta Flatey, sem þær gera.

Erfiðasti mánuðurinn til flutninga framundan

Fjarvera Baldurs hefur sett í strik í reikninginn hjá íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segist vita til þess að fólk veigri sér við ferðalögum. Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði, sem reiðir sig á siglingar Baldurs til flutninga á ferskum fiski, segir að blessunarlega hafi veðrið ekki verið svo slæmt að ekki hafi verið hægt að flytja fisk þær vikur sem Baldur hefur verið fjarverandi: „En framundan er erfiðasti mánuður ársins og það eru því mikil vonbrigði ef að ferjan fer ekki að ganga aftur sem allra allra fyrst.“

Ástandið áhyggjuefni

Skjöldur segir að kaupendur sýni því ekki skilning að vél sé biluð í ferju á Íslandi sem tengir fiskvinnsluna við útflutningshafnir og flugvelli. Hann segir að margra ára starf í uppbyggingu á viðskiptasamböndum byggist á öruggri afhendingu á ferskum fiski. Því sé ástandið mikið áhyggjuefni. „Bara með því að geta ekki sent frá okkur vörur einu sinni eða tvisvar sinnum þá geta þau viðskiptasambönd skaðast mjög mikið,“ segir Skjöldur.