Enn einn plastbarkaþeginn látinn

20.03.2017 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áttundi plastbarkaþeginn er látinn. Alls græddi ítalski læknirinn Paolo Macchiarini plastbarka í níu sjúklinga og eru átta þeirra látnir. Macchiarini sætir rannsóknum í nokkrum löndum. Hann græddi plastbarka í menn án þess að prófa aðferðina fyrst á dýrum eða hafa til þess öll tilskilin leyfi. Fyrsta plastbarkaígræðsla var gerð með aðstoð tveggja íslenskra lækna.

Andemariam Beyene dvaldist hér á landi þegar hann greindist með krabbamein. Græddur var í hann plastbarki á Karolinska-sjúkrahúsinu í júní 2011. Hann lést í janúar 2014. Christopher Lyles fékk plastbarka á Karolinska í nóvember 2011 og lést í mars 2012. Loks fékk Yesim Cetir plastbarka í ágúst 2012 á Karolinska-sjúkrahúsinu og svo aftur í júlí 2013. Á vefsíðu sænska ríkissjónvarpsins segir að faðir hennar hafi greint frá því á Facebook að Cetir væri látin. Þar með eru allir þrír sjúklingarnir sem fengu plastbarka á Karolinska-sjúkrahúsinu látnir.

Cetir dvaldist á gjörgæsludeild Karolinska-sjúkrahússins frá aðgerðinni. Eftir þriggja ára vist þar bauðst henni svo að fá ígræddan barka frá líffæragjafa. Hún gekkst svo undir viðamikla aðgerð í Bandaríkjunum í maí í fyrra en lést af völdum vandamála sem komu upp í kjölfar aðgerðarinnar.

Í frétt á vef BBC eru taldar upp níu manneskjur sem fengu plastbarka ígrædda og eru þær allar látnar, fyrir utan eina, Dmitri Onogda. Hann var síðasti sjúklingur Macchiarinis sem fékk ígræddan plastbarka. Aðgerðin var á sjúkrahúsinu í Krasnodar í Rússlandi í júní 2014. Aðgerðirnar voru framkvæmdar í Svíþjóð, London, Krasnodar í Rússlandi og í Peoria í Bandaríkjunum. Í frétt á vef Sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að Macchiarini stundi nú rannsóknir við háskólann í Kazan í Rússlandi.

Macchiarini var ráðinn til Karolinska-stofnunarinnar og vann einnig sem læknir á Karolinska-sjúkrahúsinu. Birgir Jakobsson landlæknir var yfir Karolinska-sjúkrahúsinu þegar ákvörðun var tekin um að framlengja ekki ráðningasamning við Macchiarini.