EM færði Frakklandi yfir milljarð evra

10.01.2017 - 06:16
Mynd með færslu
Fjöldi Íslendinga lagði leið sína til Frakklands vegna EM í sumar.  Mynd: Ragnhildur Thorlacius  -  RÚV
Evrópumótið í knattspyrnu færði Frakklandi um 1.220 milljónir evra í ríkiskassann samkvæmt útreikningum ráðuneytis íþróttamála þar í landi. Það jafngildir tæplega 150 milljörðum króna. Kostnaður við mótið var um 200 milljónir evra.

AFP fréttastofan greinir frá því að ákvörðunin um að halda mótið hafi verið umdeild, sérstaklega í ljósi þess að ríkið þurfti að reiða fram 24 milljónir evra, tvöfalt meira en reiknað var með, í öryggisgæslu vegna vaxandi hryðjuverkaógnar. Auk þess var um 160 milljónum evra veitt úr ríkissjóði til byggingar og endurnýjunar leikvanga fyrir mótið. Annar kostnaður var greiddur af einkaaðilum og knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Samkvæmt gögnum ráðuneytisins fékk ríkið hins vegar til baka 1.220 milljónir evra vegna ferðamanna og fjármagns sem kom inn beint vegna mótsins. Við útreikninga var tekinn til greina sá fjöldi ferðamanna sem mögulega forðaðist Frakkland á meðan mótið fór fram. Eins var reiknað með því ríkisfé sem hægt hefði verið að nota í annað en leikvangana.

Hver Evrópumótsgestur eyddi að jafnaði 154 evrum á dag. Meirihlutinn fór í gistingu og fæði. Alls færðu gestirnir Frökkum 623,8 milljónir evra í gjaldeyri. Frakkar fengu 360 milljónir frá UEFA vegna mótsins og liðin 24 okmu með um 35 milljónir evra í franska hagkerfið. Stjórnendur og stuðningsaðilar reiddu svo fram tæpar 60 milljónir.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV