„Eldurinn er gjörsamlega stjórnlaus“

12.10.2017 - 19:25
Óttast er um afdrif hundruða íbúa í norðurhluta Kaliforníu vegna skógareldanna sem þar geisa. Staðfest er að tuttugu og þrír eru látnir. Þúsundum íbúa nokkurra bæja var skipað að yfirgefa heimili sín í gær. Eldurinn er gjörsamlega stjórnlaus, segir Birgir Gunnarsson sjúkraþjálfari sem er í borginni Santa Rosa.

„Vindurinn er að aukast og við vitum ekkert hvernig þetta fer þannig að þetta er eiginlega, eldurinn er gjörsamlega stjórnlaus, það er ekkert hægt að gera í þessu.“ Eldarnir loga beggja vegna við Birgi, að austan úr Napa dalnum og nálgast svo úr norðvestri við bæinn Ukiah. „Það er bara verið að segja fólkinu að fara, fariði bara hvert sem þið getið komist í burtu frá þessu. Á þessu stigi er í rauninni bara verið að hugsa um mannslíf,“ segir Birgir. 

„Það versta sem ég hef séð hérna“

Birgir segist tilbúinn að forða sér þegar þess gerist þörf. Í gærkvöld fengu þúsundir íbúa nokkurra smábæja í nágrenni Santa Rosa fyrirskipun um að gera einmitt það - að yfirgefa heimili sín. Staðfest er að 23 hafa látist í eldunum, sem blossuðu upp á sunnudagskvöld; nærri 300 manns er saknað. Slökkviliðsmenn berjast við þá á yfir tuttugu stöðum í norðurhluta Kaliforníu; sumsstaðar hefur tekist að hefta útbreiðslu þeirra að takmörkuðu leyti, annars staðar er ekkert hægt að ráða við þá. Á fjórða þúsund íbúðarhús hafa eyðilagst; á fréttamyndum má sjá heilu íbúðarhverfin sem brunnið hafa til grunna. „Þetta er svolítið skuggalegt. Þetta er eiginlega það versta sem ég hef séð hérna. Það kom oft nálægt húsinu hjá okkur í Highlands í Suður-Kaliforníu en þá rigndi bara ösku á þakið og við vorum með slönguna á fullu allan daginn og alla nóttina en hérna er þetta öðruvísi, við erum alveg króuð hérna inni. Og er þetta mikil eyðilegging þarna í kringum þig? Alveg hroðaleg, eyðilegging er alveg hroðaleg. Þetta er alveg ótrúlegt.  

Fjölmörgum íbúum hefur verið gert að yfirgefa heimili sín en slökkviliðsmönnum gengur illa að eiga við eldana.

Nær allir að reyna að forða sér

Birgir vinnur á endurhæfingarmiðstöð fyrir aldraða. Þar eru starfsmenn að reyna að koma sjúklingum og eldra fólki til fjölskyldna sinna því rýma á húsið sem fyrst. Það eru þó enn nokkrir sjúklingar eftir sem eru til að mynda rúmfastir. „Fólk hefur verið að koma að ná í foreldra sína til að koma þeim í skjól og keyra þau annaðhvort í norður eða suður eða bara þangað sem það kemst. Það eru bara nokkur eftir sem þurfa að fara í sjúkrabílum af því að þau geta ekki gengið eða eru rúmliggjandi. Við erum með þrjá sjúkraþjálfara hérna í vinnu hjá okkur, ég og konan. Einn, það brann húsið sem hann var í þannig að hann er heimilislaus. Svo er önnur kona sem hefur verið að koma hingað úr Napa-dalnum. Hún er búin að flytja sig yfir til Sacramento því það er allt að brenna í kringum hana. Sú þriðja er fárveik heima því það er búinn að vera svo mikill reykur í kringum hana þannig að þetta er mjög slæmt ástand hérna,“ segir Birgir. 

epa06260071 Burnt out vehicles sit in a driveway in Napa, California, USA, 11 October 2017. Multiple wildfires scattered throughout Napa, Sonoma and Mendocino counties, have destroyed more than 3,000 homes and businesses in their path and left at least 21
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA

Þetta er afleiðingin af þurrkatíð sem staðið hefur síðustu árin í norðurhluta Kaliforníu - á þriðja tug skógarelda sem blossað hafa upp síðustu daga í skraufþurrum gróðri, og hafa breiðst ógnarhratt út í sterkum vindi. Slökkviliðsmenn hafa barist sleitulaust síðan á sunnudag við eldana - sums staðar hefur tekist að hemja útbreiðslu þeirra, annars staðar verður ekki við neitt ráðið.