Eldtungur úr þaki stöðvarhússins

12.01.2018 - 12:31
Eldtungur stóðu upp úr þaki stöðvarhúss Hellisheiðarvirkjunar í hádeginu. Tvær af sjö aflvélum stöðvarinnar hafa stöðvast vegna eldsins og sömu sögu er að segja af varmastöð sem framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið. Það á þó ekki að bitna á fólki á þjónustusvæði virkjunarinnar nema eldurinn verður langvinnur og það dragist að hægt verði að ræsa aflvélarnar.

„Nú eru slökkviliðsmenn að reyna að ráða niðurlögum þessa elds,“ sagði Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar, í hádegisfréttum RÚV. „Sem betur fer tókst greiðlega að rýma húsið og enginn mannskaði var.“

„Eldur stóð upp úr þakinu í morgun. Eldurinn kom upp í miðhluta hússins og er í sölum þar sitthvorum megin við,“ sagði Eiríkur.

Eldurinn er farinn að hafa áhrif á starfsemi Hellisheiðarvirkjunar. „Það eru tvær af sjö aflvélum virkjunarinnar óvirkar og varmastöðin sem framleiðir heitt vatn fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Eiríkur. Hann segir að fólk á þjónustusvæði virkjunarinnar verði þessa þó ekki vart á eigin skinni ef eldurinn og stöðvunin verður ekki langvinn.

Töluverður eldur en staðbundinn

„Það rýkur töluvert úr virkjuninni og það eru eldtungur sem sjást úr þaki stöðvarhússins,“ sagði Hallgrímur Indriðason fréttamaður í hádegisfréttum, nýkominn á staðinn. Hann segir að séð utan frá líti þetta illa út. „Eldurinn virðist töluverður í stöðvarhúsinu. Slökkviliðið er mætt á staðinn og reynir að ráða niðurlögum eldsins,“ sagði Hallgrímur. „Eldurinn er samt frekar staðbundinn en logar upp úr þakinu. Hann er ekki mjög útbreiddur um virkjunina en á þeim stað þar sem hann logar þar er eldurinn greinilega töluverður.“

Uppfært 12.43: Nokkuð hefur dregið úr þeim svarta reyk sem lagði frá eldinum en enn standa eldtungur upp úr þakinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímiur Indriðason  -  RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV