Ekki færri morð í Kólumbíu í fjóra áratugi

26.12.2017 - 18:42
epaselect epa04706451 A Russian made aircraft Sukhoi SU-30 participates in a military exercise held in San Carlos del Meta, Venezuela, 15 April 2015. The Bolivarian Armed Forces of Venezuela (FANB) held the second phase of the military exercise &#039
 Mynd: EPA  -  EFE
Færri morð voru framin í Kólumbíu í ár en undanfarna fjóra áratugi, sé miðað við íbúafjölda hvers árs. Varnarmálaráðherrann Luis Carlos Villegas sagði í dag að rétt ríflega 11 þúsund morð hefðu verið framin í ár, um 23 á hverja 100 þúsund íbúa, sem er alþjóðlegur mælikvarði á morðtíðni. Það er nokkur hundruð morðum minna en í fyrra. Til samanburðar er morðtíðnin í heiminum 5,3 morð á hverja 100.000 íbúa á ári. Talan fyrir Bandaríkin er 4,9 og Ísland er í 184. sæti með 0,9.

Villegas sagði að morðunum hefði fækkað um 320 á milli ára og sagði að ársins sem er að líða yrði minnst sem þess öruggasta í fjóra áratugi í landinu. Kólumbísk heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sent frá sér opinberar tölur um dauðsföll ársins 2017, en samkvæmt tölum þeirra frá í fyrra voru morðin þá 11.532.

Morðtíðnin í Kólumbíu hefur farið hríðlækkandi undanfarin ár og er það rakið beint til friðarumleitana stjórnvalda við skæruliðasamtökin FARC, sem lögðu loks niður vopn fyrr í ár í kjölfar samkomulags sem náðist í nóvember í fyrra.

Kólumbía er þriðja hættulegasta landið í Suður-Ameríku í þessu tilliti. Þar trónir Venesúela á toppnum með um 57 morð á hverja 100 þúsund íbúa árlega, og í öðru sæti er Brasilía, með um 27. Hvergi í heiminum eru fleiri myrtir en í Mið-Ameríkuríkinu El Salvador, eða um 109 á hverja 100 þúsund íbúa á ári.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV