Ekkert skólahald í Árneshreppi

09.01.2018 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RÚV
Finnbogastaðaskóli í Árneshreppi hefur ekki verið starfræktur frá áramótum en þá voru engir grunnskólanemendur eftir í sveitarfélaginu. Þrátt fyrir að Árneshreppur hafi löngum verið fámennur hreppur þá hefur það ekki gerst áður að skólanum hafi verið lokað - í nær 90 ár. Oddviti segir þó að um tímabil sé að ræða. Á vormánuðum megi búast við nemanda á ný.

Fjölskyldur flutt úr sveitarfélaginu

Undanfarin ár hefur skólahald Finnbogastaðaskóla verið í nokkurri óvissu vegna fárra nemenda og flutninga fjölskyldna úr sveitarfélaginu. Í haust fækkaði nemendum úr fimm í tvo. Lungan úr önninni voru því einungis tveir nemendur í skólanum. Þá var starfandi skólastjóri, kennari og matráður.

Ekki útséð með skólahald til framtíðar

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir mikilvægt að geta opnað skólann á ný til að taka á móti nemendum sem koma aftur eða flytja í hreppinn enda sé ekki útséð með að af því verði. Þá bindur hún vonir við að hægt sé að nýta möguleika skólahússins til námskeiðshalds og fleira.