„Eins og við séum að tala við börn í bönkunum"

07.07.2017 - 10:58
„Jón, það er eins og við séum að tala við börn í bönkunum,“ segir landsbyggðarfólk við ráðherra byggðamála, Jón Gunnarsson, um viðbrögð lítilla og stórra fjármálastofnana við óskum um fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna verkefna úti á landi. Hann sagðist á Morgunvaktinni á Rás 1 ætla að ræða við fjármálstofnanir í tilefni þessara kvartana.

Jón Gunnarsson segir mikilvægt að fjármálastofnanir, sem nú ráði yfir miklum fjármunum, bregðist við þessara skoðana sem hann heyri á landsbyggðinni. Á sama tíma og lánað er til gríðarlegra framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu segja margir á landsbyggðinni að þeir komi að lokuðum dyrum. Á Morgunvaktinni fyrr í vikunni vakti Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, athygli á þessari meintu tregðu fjármálastofnana og skilningsleysi gagnvart landsbyggðinni.  

Fólki hefur ekki fjölgað á Vestfjörðum eða á Norðurlandi-vestra eins og í öðrum landshlutum. Sérstaklega virðast Vestfirðir eiga undir högg að sækja. Þar búa nú aðeins um 2% landsmanna. Heimamenn vilja fá fiskveiðiheimildir sérmerktar Vestfjörðum, betri vegi og nægt rafmagn. Jón Gunnarsson, ráðherra byggðamála, segir að þrátt fyrir miklu sé landað af fiski fyrir vestan fjölgi störfum þar ekki við fiskvinnslu.

„Sjávarútvegur og landbúnaður, þessar rótgrónu atvinnugreinar okkar, munu ekki gegna því byggðafestuhlutverki sem þær hafa gert í gegnum aldirnar.“

Jón Gunnarsson bendir á að störfum sé enn að fækka í sjávarútvegi vegna nýrra tækni. Lykilatriðið sé að skapa grundvöll fyrir nýrri starfsemi. Þrennt þurfi að bæta: samgöngur, fjarskipti og dreifikerfi raforku. „Ef við erum með þessi atriði í þokkalegu standi, þá sköpum við þessum dreifðu byggðum tækifæri til þess að eflast á nýjum vettvangi.“ Ráðherra segir að framundan sé breyting sem færi Ísland í fremstu röð í fjarskiptum þegar háhraðanetið verður orðið að veruleika að mestu leyti 2019 og 2020. Háhraðanetið eigi eftir að gjörbreyta möguleikum fólks í dreifðum byggðum landsins. En staðan í samgöngumálum er verri, þar séum við langt á eftir og við blasi gríðarstór verkefni. „Og ekki fyrirséð hvernig okkur tekst með það á næstu árum.“ Hvað varðar dreifikerfi raforku séu verkefnin líka stór. Aðeins tvö svæði á landinu, suðvesturhornið og Suður-Þingeyjarsýsla, geti boðið upp á aðstöðu fyrir fyrirtæki sem þurfa 5 til 20 megavött vegna starfsemi sinnar. „Þetta er alvarleg staða. Landshlutar sitja ekki við sama borð þegar kemur að þessum tækifærum.“ En það er ekki ástæða til að byggja upp dreifikerfi nema að virkjað sé, segir ráðherra. Og hann sagði frá því að Landsnet sé að fara að setja upp dísilrafstöðvar á Akureyri til að tryggja raforkuöryggi á svæðinu.

„Þetta er einhver fáránleg mynd sem er að dragast upp fyrir okkur í þessum efnum.“

Í landi hreinnar orku ætlum við sem sagt að fara að knýja dísilrafstöðvar til að mæta orkuþörf. Jón Gunnarsson bendir á að á Siglufirði hafi menn misst af tækifæri á að byggja upp nýtt fyrirtæki af því að ekki var hægt að afhenda 8 megavött af rafmagni. „Þetta er það sem við þurfum að laga,“ segir ráðherrann.

Í samgöngumálum landsins er framtíðarmyndin ekki sérlega uppörvandi. Brýn verkefni á suðvesturhorninu, til að mæta álagi og draga úr slysahættu, kosta um 100 milljarða. En á ríkisfjármálaáætlun séu aðeins 10 milljarðar á ári merktir vegamálum. Og þannig verður það næstu árin. „Þá eigum við eftir Teigsskóg sem kostar 6 milljarða, Dýrafjarðargöngin sem kosta 9 milljarða, Dynjandisheiði sem kostar sennilega 4 milljarða. Við eigum eftir Skógarströndina, Dettifossveginn, Hornafjarðarfljótið, sem líklegu eru 4 milljarðar, og uppsveitir Árnessýslu og Ölfus, sem kosta okkur marga milljarða.“ Ráðherra samgöngu- og byggðamála minnir á að við erum fámenn þjóð í stóru landi. Vegakerfið sé risavaxið verkefni fyrir okkur. Þess vegna vill hann að við fetum okkur inn á braut vegatolla, að gjald verði tekið af ferðamönnum sem fara um tiltekna vegi. „Það er algjörlega nauðsynlegt að við finnum einhverja uppsprettu fjár við hlið skattpeninganna til að fara í þetta alvöru átak.“ Ráðherra ætlar að kynna hugmyndir sínar í þeim efnum síðar í sumar.

En byggðamálaráðherrann segir að stórkostleg uppbygging sé að eiga sér stað í fiskeldi á Vestfjörðum, fjárfestingin nemi meiru en sem svari því að fá skuttogara í hvert þorp. Vegakerfið sé hinsvegar ekki boðlegt og tilbúið. Þá gagnrýndi ráðherra náttúruverndarfólk fyrir óraunsæi.

„Það hefur umhverfisáhrif að leggja rafmagn til fólks. Það hefur umhverfisáhrif að leggja vegi til fólks.“

Jón Gunnarsson segir að miklum árangri hafi verið náð við að gera þetta með þeim hætti að tekið sé tillit til náttúrunnar, þökk sé náttúruverndarfólki. Mikilvægt sé að á landsbyggðinni verði til ný tækifæri fyrir ungt fólk sem þangað vill flytja.

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi