Einni leikskóladeild lokað á hverjum degi

23.09.2017 - 20:50
Á hverjum degi er ein deild lokuð á leikskólanum Sunnufold í Reykjavík vegna manneklu. Leikskólastjórinn segir þetta nauðsynlegt til að viðhalda faglegu starfi og býst við að svona verði þetta á meðan fólk fæst ekki til starfa. Foreldrar hafi mætt þessu af skilningi, en líka reiði.

Hátt í 140 börn eru á leikskólanum Sunnufold á sjö deildum og eru á bilinu 18 til 23 börn á hverri deild. Eins og staðan eru núna eru sex deildir opnar hvern dag í stað sjö.

„Við höfum farið í þetta vegna þess að okkur hefur ekki tekist að manna. Við förum inn í haustið og aðlögum yngstu börnin og vonum að það gerist sem yfirleitt hefur gerst, að við höfum fengið ungt fólk til vinnu milli stúdentsprófs og heimsreisu, en þau hafa bara ekki skilað sér þetta haustið. Það eru engar umsóknir, það eru engir tölvupóstar um vinnu og við höfum bara ekki mannafla til að sinna þessu sem skyldi,“ segir Fanný Heimisdóttir leikskólastjóri.

Mbl.is greindi fyrst frá málinu. Starfsfólk þeirrar deildar sem er lokuð hverju sinni ýmist leysir af á öðrum deildum í veikindatilfellum og fleiru eða sinnir undirbúningsvinnu. Sum barnanna fara yfir á aðrar deildir ef engin önnur úrræði eru til staðar.

„Með því að gera þetta svona viljum við reyndar vernda starfið fyrir börnin á deildunum. Þau séu í sínu hópastarfi í sínu leikumhverfi með sínum félögum. Þau séu í tengslamyndun með sínu starfsfólki að mestu leyti og börnum, en að sjálfsögðu þá bregðumst við við ef að börn geta ekki verið heima þá fara þau í heimsókn á milli deilda.“

Fanný segir þetta vera erfitt fyrir foreldra sem hafi tekið þessu af skilningi en líka reiði, en ítrekar að verið sé að vernda umhverfi barnanna. 

„Þannig að þetta er lausn sem okkur fannst við verða að fara í með fagleg sjónarmið að leiðarljósi.“

Hún minnir á að leikskólinn sé ekki geymsla fyrir foreldra og atvinnulífið, heldur fyrst og fremst umhverfi fyrir börnin að vaxa í. Hún segir reynt að handveiða fólk til starfa, auk þess sem aðgerðateymi sé að störfum hjá skóla- og frístundasviði, en þetta fyrirkomulag verði við lýði á Sunnufold eitthvað áfram.

„Ég geri ráð fyrir því já, en ég vona að þetta leysist fyrr heldur en síðar,“ segir Fanný Heimisdóttir leikskólastjóri í Sunnufold.

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV