Ein deild lokuð á dag síðustu sex daga

12.10.2017 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Á leikskólanum Fífusölum í Kópavogi hefur þurft að loka einni deild á dag undanfarna sex daga sökum manneklu. 111 börn eru á leikskólanum á sex deildum, þannig að börn á öllum deildum hafa nú þurft að vera heima einn dag. „Við höfum ekki lent í þessu í fjöldamörg ár,“ segir Heiða Björt Gunnólfsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri Fífusala.

Heiða Björt segir að auglýst hafi verið eftir tveimur til þremur leikskólakennurum. Á leikskólanum hafi veikindi líka verið að hrjá starfsfólkið og því misjafnt eftir dögum hversu marga starfsmenn vantar. „Við erum rétt að ná að dekka það sem við erum með,“ segir Heiða og telur að málum sé eins háttað á fleiri leikskólum í Kópavogi. „Þetta er sama ástandið, það vantar fólk.“ 

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa leikskólar í Reykjavík einnig þurft að takast á við manneklu og samþykkti borgarráð í síðustu viku aðgerðir til að takast á við vandann. 

Staðan verri en á sama tíma í fyrra 

Heiða segir að mikið álag hafi verið á starfsfólki leikskólans. „Við erum búin að hlaupa hraðar til að dekka þetta. Á meðan bíða störf okkar stjórnenda og það gengur ekki til lengdar. Það þarf að finna lausnir.“

Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ hefur einnig þurft að loka einni deild á dag á leikskólanum Læk í þriðja sinn í haust. Fyrst í byrjun september þurfti að senda börn heim í eina viku, svo aftur í síðustu viku og þessari viku. Þá hefur leikskólinn Núpur þurft að senda börn heim hluta úr degi. „Það vantar um það bil tíu til tólf manns í störf á leikskólum sveitarfélagsins, það er það bara miðað við lágmarksmönnun,“ segir Sigríður Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogs. „Þetta er svona svipað eins og í síðasta góðæri – það er tilfinning fólks hér. Staðan núna er mun verri en á sama tíma í fyrra.“