„Eigum að lesa, þegja, hlusta og skilja“

14.01.2018 - 12:19
epa06398032 US actor and cast member Mark Wahlberg arrives for the 'All the Money in the World' movie premiere in Beverly Hills, California, USA, 18 December 2017. The movie will be released in US cinemas on 25 December 2017.  EPA-EFE/EUGENE
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Máni Pétursson, sem hefur meðal annars þjálfað knattspyrnulið Stjörnunnar, segir það hafa verið hræðilegt að lesa frásagnir íþróttakvenna af kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Hann segir að sem karlmaður eigi hann núna að lesa, þegja, hlusta og skilja „og byrja að haga mér betur.“ Friðjón Friðjónsson, sem var um tíma formaður knattspyrnudeildar Vals, segir að íþróttafélögin verði að breyta þeirri menningu að allir eigi bara að harka af sér.

Friðjón og Máni voru gestir Egils Helgasonar í Silfrinu í dag ásamt Frosta Logasyni og Ólínu Þorvarðardóttur og ræddu þar upplifun sína af Metoo-byltingunni.

Í vikunni sendu um 500 íþróttakonur frá sér yfirlýsingu þar sem skorað var á íþróttahreyfinguna að taka á kynbundnu misrétti, ofbeldi og áreitni. Með fylgdu 62 frásagnir íþróttakvenna en þar var meðal annars að finna níu frásagnir af nauðgun. 

Máni segir það hafa verið hræðilegt að lesa þessar frásagnir og að karlarnir í í stjórnum íþróttafélaganna eigi að taka þetta til sín. Undir það tók Friðjón Friðjónsson almannatengill, sem var um tíma formaður knattspyrnudeildar Vals. Hann benti á að nýverið hefðu nokkrir strákar stigið fram og talað um geðheilbrigðismál. „Stemningin í íþróttafélögum er einhvern þannig að þú átt að harka af þér og að þú ert góður liðsmaður ef þú kvartar ekki. Þetta þarf að breytast.“ 

Hann sagði stjórnarmenn, starfsmenn og þjálfara íþróttamanna þurfa að breyta því hvernig hugsað væri um íþróttamennina því þetta væri að stærstum hluta mjög ungt fólk sem þeir væru með í sinni umsjón. „Þú átt að haga þér eins og þú hafir verið í akkorði á síldarárunum, átt að þjösnast á þér, spila í gegnum meiðsl. Þetta er algjört rugl.“

Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður, sagði vandann vera menningarbundinn og að hann teygði sig inn í alla kima samfélagsins. „Við erum svo samdauna ástandinu og þetta þarf að brjóta upp.“

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV