Eðlilegt að læknarnir treystu Karolinska

25.01.2017 - 22:21
Sten Heckscher yfirmaður rannsóknarnefndar Karolinska institut á plastbarkamálinu
 Mynd: RÚV
Íslensku læknarnir tveir sem tóku þátt í plastbarkaígræðslunni með Paolo Machiarini voru væntanlega í góðri trú þegar þeir lögðu nafn sitt við rannsókn hans, þar sem þeir töldu öllum reglum fylgt. Þetta er mat formanns rannsóknanefndar um þátt Karólínska háskólans í plastbarkamálinu. 

Sten Heckscher, sem hélt erindi í Háskóla Íslands í dag í boði Siðfræðistofnunar, stýrði rannsóknarnefndinni sem Karólínski háskólinn skipaði til að rannsaka þátt hennar í plastbarkamálinu. Það snýst um Paolo Machiarini, sem græddi plastbarka í fólk án þess að aðferðin hefði verið prófuð á dýrum.

Niðurstaðan er stór áfellisdómur yfir háskólanum. Verk Machiarinis voru ekki skoðuð áður en hann var ráðinn 2010, háskólinn tryggði ekki að reglum hefði verið fylgt í aðgerðunum, gögnum var ábótavant og ásakanir á hendur Machiarini ekki kannaðar, svo fátt eitt sé nefnt. „Við gagnrýnum kæruleysisleg viðhorfa þeirra til reglna. Það er afstaða til verkferla sem dugar ekki,“ segir Heckscher. Byggja verði upp virðingu fyrir þeim reglum og ferlum sem eru til staðar. 

Tveir íslenskir læknar komu að fyrstu aðgerðinni og eru meðhöfundar að tímaritsgrein með röngum upplýsingum um aðgerðina. Nefnd Heckscher skoðaði ekki þá grein. „Fyrir sjálfan mig get ég sagt að þeir hafa haft góða ástæðu til að treysta á hvað gilti í Svíþjóð með aðgerðina o.s.frv., og að farið yrði eftir gildandi reglum. Það er sérkennilegt að gruna Karólínska sjúkrahúsið um að fylgja ekki eftir eigin reglum á eigin sjúkrahúsi. Þeir hafa varla verið að hugsa um það.“

Heckscher vill ekki tjá sig um hvort Alþingi eigi að koma að rannsókn á hlut Íslands í málinu, en Háskólinn er með eigin nefnd. „Það er mikilvægast að rannsóknin sé vel unnin. Mér skilst að sá sem fer fyrir henni sé mikils metinn dómari (Páll Hreinsson). Það er það mikilvægasta.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV