Dregur úr eldi og reyk

12.01.2018 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason  -  RÚV
Svo virðist sem slökkvilið hafi náð tökum á eldinum í Hellisheiðarvirkjun. Í hádeginu lagði mikinn svartan reyk frá virkjuninni og eldtungur stóðu upp úr þakinu. Nú sjást engar eldtungur lengur og reykurinn sem leggur frá stöðvarhúsinu er hvítur og mun minni en áður. Hópur slökkviliðsmanna er farinn að ganga frá búnaði sem notaður hefur verið við slökkvistarfið.

Tilkynnt var um eldinn klukkan hálf tólf í dag. Kallað var eftir aðstoð slökkviliðs úr Árnessýslu og af höfuðborgarsvæðinu. Fjölmennt slökkvilið fór á staðinn og hófst handa við að slökkva eldinn. Mikill eldur var um miðbik stöðvarhússins og náði hann út í sali til hvorrar hliðar, að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orku náttúrunnar, í hádegisfréttum RÚV. 

Tvær aflvélar stöðvuðust vegna eldsins og slökkt var á varmaveitu sem sér höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni. Hvorugt átti þó að hafa áhrif á rafmagns- og heitavatnsþjónustu fyrst um sinn.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV