Dregið í viðureignir annarrar umferðar

11.01.2018 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Baldursson  -  RÚV
Í kvöld kom í ljós hvaða 16 lið komust áfram í aðra umferð Gettu betur þegar þrjár síðustu viðureignir fyrri umferðar fóru fram. Lið Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans í Reykjavík og Framhaldsskólans á Laugum unnu öll viðureignir sínar.

Fyrsta viðureign kvöldsins var á milli Menntaskólans á Akureyri og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. MA leiddi alla keppnina og sigraði lið FS með 38 stigum gegn 22. Þá mættust Menntaskóli í tónlist, sem var að taka þátt í fyrsta sinn, og Menntaskólinn í Reykjavík og lauk þeirri viðureign með sigri MR 46 - 16.  Síðasta keppni kvöldsins var á milli Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og Framhaldsskólans á Laugum og sigraði síðarnefndi skólinn með 17 stigum gegn 12 stigum FÍV. Þar með lauk fyrstu umferð Gettu betur en þrettán sigurlið ásamt liði Kvennaskólans og Menntaskólans við Sund sem sátu hjá í þessari fyrstu umferð og stigahæsta tapliðið sem er lið Menntaskólans á Ísafirði fara áfram í aðra umferð keppninnar. 

Dregið hefur verið í viðureignir annarar umferðar:

Mánudaginn 15.janúar mætast lið Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla, lið Kvennaskólans og Tækniskólans, þá verður grannaslagur á milli Menntaskólans á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands og síðasta viðureign mánudagskvöldsins er á milli Menntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Ísafirði. 

Þriðjudaginn 16.janúar mætast lið Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti, þá eigast við lið Flensborgar og Verzlunarskólans, þriðja viðureignin er á milli Menntaskólans við Hamrahlið og Framhaldsskólans á Laugum og að lokum keppir lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ gegn Menntaskólanum við Sund. 

Útsending er sem fyrr á Rás 2 og  hefst bæði kvöldin kl.19.23.

Átta sigurlið annarrar umferðar komast áfram í sjónvarpshluta keppninnar sem hefst 16..febrúar nk. 

Spurningahöfundar og dómarar Gettu betur í ár eru Bryndis Björgvinsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson ásamt Sævari Helga Bragasyni sem er þeim til aðstoðar. Björn Bragi Arnarson er spyrill. Umsjónarmaður og útsendingarstjóri er Elín Sveinsdóttir.

 

Elín Sveinsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Gettu betur