Dagur: „Áfall að lesa frásagnir íþróttakvenna“

12.01.2018 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur þegar haft samband við forystu Íþróttabandalags Reykjavíkur til að bjóða fram stuðning borgarinnar við viðbrögð og úrvinnslu einstakra mála. „Það á að vera sameiginlegt forgangsverkefni að tryggja algjört öryggi iðkenda og allra annarra sem koma að íþróttamálum - að ótöldu umhverfi jafnréttis og virðingar í öllum samskiptum,“ segir Dagur. Það hafi verið honum áfall að lesa frásagnir íþróttakvenna sem birtust í gær.

Þetta kemur fram í dagbókarpistli sem Dagur birti á vefsíðu sinni í dag.  Hann segir að brotin í frásögnum kvennanna séu gróf, jafnvel grófari en í frásögnum annarra kvennahópa og þolendurnir oft ungir. „Ábyrgð gerenda er vitanlega grundvallaratriði en ábyrgð samfélagsins að hlusta - ekki aðeins á frásagnirnar heldur bregðast við er ótvíræð og mikil. Um það snýst líka ákall íþróttakvennanna.“

Dagur segir að samfélagið og sveitarfélögin hafi staðið myndarlega á bak við íþróttastarf með uppbyggingu og margvíslegum styrkjum. „Við eigum því að finna til ábyrgðar og líta á það sem forgangsmál og frumskyldu að kynferðisleg áreitni eða ofbeldi verði ekki liðin í tengslum við íþróttastarf, keppni og æfingar.“

Hann segir að allir iðkendur, foreldrar þeirra og forráðarmenn og allir sem komi að íþróttastarfi verði að geta treyst því að það sé öruggur vettvangur. Tekið sé á þeim málum sem komi upp af fagmennsku og festu. „Í því felst að staðið sé með þolendum og þeim veittur nauðsynlegur og eðlilegur stuðningur. Og þetta snýst líka greinilega um breytta menningu, og jafnrétti á öllum sviðum.“

 

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV