Dæmdur fyrir árás á konu sína í hjólhýsi

05.01.2018 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Eysteinsson  -  RÚV
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á barnsmóður sína í hjólhýsi á tjaldsvæði á Suðurlandi um miðjan maí á síðasta ári.

Manninum var gefið að sök að hafa veist að þáverandi sambýliskonu sinni, slegið hana ítrekað í líkama og höfuð, rifið í hár hennar og skellt höfði hennar utan í gluggasyllu hjólhýsis. 

Maðurinn neitaði sök og  sagðist ekki muna eftir því að hafa ráðist á konuna, annað hvort hefði hann verið það drukkinn eða þetta hefði ekki gerst. Lögreglumenn sem komu á vettvang áttu erfitt með að vekja manninn þegar þeir komu á staðinn en hann svaf í stól fyrir utan hjólhýsið. 

Lögreglumaður  sagði fyrir dómi að hárflygsur hefðu verið inni í hjólhýsinu og allt verið á rúi og stúi þar inni.

Konan óskaði eftir því að draga kæruna til baka nokkrum mánuðum eftir árásina en ákvað svo í júlí  að hætta við að draga hana til baka og óskaði eftir því að málið færi sinn farveg hjá lögreglunni.

Héraðsdómur segir að í dómi sínum að konan sé ein til frásagnar um hvað gerðist og maðurinn hafi ekki með nokkrum hætti getað hrakið frásögn hennar. Það virðist mega rekja til ölvunarástands hans. Konan hafi verið trúverðug og gögn málsins bendi eindregið til þess að maðurinn hafi ráðist á hana.

Var hann því dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi.

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV