Chelsea Manning vill á þing

14.01.2018 - 01:37
RETRANSMISSION TO CORRECT RANK TO INTELLIGENCE ANALYST - FILE - In this Sunday, Sept. 17, 2017 file photo, Chelsea Manning speaks during the Nantucket Project's annual gathering in Nantucket, Mass. On Thursday, Jan. 11, 2018, Manning, the transgender
 Mynd: AP
Uppljóstrarinn Chelsea Manning, sem dæmd var og fangelsuð fyrir að leka trúnaðarskjölum um stríðsrekstur Bandaríkjanna í Írak og Afganistan, býður sig fram til setu í öldungadeild Bandaríkjaþings sem fulltrúi Marylandríkis, en kosið verður um annan öldungadeildarþingmann ríkisins í nóvember næstkomandi. Manning býður sig fram undir merkjum Demókrata, en þeir halda prófkjör í lok júní.

Fyrir á fleti er Benjamin L. Cardin, sem verið hefur fulltrúi Demókrata og Maryland í öldungadeildinni síðan 2006 og þykir nokkuð traustur í sessi.

Manning hefur lagt fram tilskilin gögn hjá alríkiskjörstjórn en mun eiga eftir að leggja fram samsvarandi gögn í Marylandríki. Hún hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla eftir að fréttir bárust af framboði hennar.

Elizabeth Chelsea Manning er 30 ára gömul. Hún var greinandi hjá leyniþjónustu hersins og lak yfir 700.000 leyniskjölum sem tengdust hernaði Bandaríkjanna í Írak og Afganistan til Wikileaks. Í gögnunum voru upplýsingar sem sýndu fram á að liðsmenn hersins, háir sem lágir, höfðu gert sig seka um fjölda mis-alvarlegra afbrota og yfirhylmingu að auki. Var Manning handtekin fyrir vikið árið 2010 og dæmd í 35 ára fangelsi 2013. Barack Obama náðaði hana í lok valdatíðar sinnar og var hún leyst úr haldi í maí síðastliðnum.

Chelsea er transkona; þegar hún var handtekin hét hún enn Bradley Manning. Í fyrra var Danika Roem kosin á ríkisþing Virginíuríkis og varð þar með fyrsta trans-manneskjan til að ná kjöri á bandaríska löggjafarsamkundu. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, kallar Manning föðurlandssvikara. Hann hefur einnig freistað þess að banna transfólki að þjóna í herjum Bandaríkjanna, en dómstólar gerðu hann afturreka með þá tilskipun.