Búið að opna veginn um Súðavíkurhlíð

07.01.2018 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Snjómokstur er hafinn á vegum á Vestfjörðum þar sem illfært og ófært var í morgun. Einnig er búið að opna veginn um Súðavíkurhlíð, sem var lokaður í nótt og í morgun vegna snjóflóðahættu.

Þetta kemur fram í yfirliti Vegagerðarinnar um færð og aðstæður á vegum. Hálka eða hálkublettir eru á vegum í öllum landshlutum. 

Hálkublettir eru víða á Reykjanesi. Á Suðurlandi eru það hálka, krapi og hálkublettir sem gætu reynst ökumönnum erfiðir. Að auki er þoka á fjallvegum og flughált er víða á útvegum í Árnes- og Rangárvallasýslum. 

Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja. Flughált er á Útnesvegi, í Staðarsveit og norðan megin á Snæfellsnesi. Skafrenningur er á fjallvegum.

Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á flestum leiðum á Norðurlandi. Þæfingur og éljagangur er á Hólasandi og á Hófaskarði er ófært og stórhríð. 

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Austurlandi, skafrenningur og éljagangur er á fjallvegum. Á Suðausturlandi er hálka og snjóþekja. Flughált er á Skeiðarársandi.