Mynd með færslu
01.12.2017 - 18:15.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Two Trains er fyrsta sólóplata Högna Egilssonar. Platan var dágóðan tíma í vinnslu sem litar á margan hátt afraksturinn. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Hugsa sér að nú séu tíu ár liðin frá því að Hjaltalín sendi frá sér sína fyrstu plötu, Sleepdrunk Seasons. Ein sú almagnaðasta hljómsveit sem stigið hefur fram á Íslandi og plötur hennar mikil þrekvirki, hver á sinn hátt. Högni Egilsson, söngvari, gítarleikari og framvörður gefur nú út sólóplötu sem á rætur sínar í tónlist sem hann og Stephan Stephensen (President Bongo) sömdu fyrir Listahátíð í Reykjavík vorið 2011. Atli Bollason annaðist þá textasmíð og eru þeir þrír skrifaðir fyrir tónlistinni á plötunni en President Bongo stýrði upptökum.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Oddsson

Langt

Vinna við plötuna hefur verið stopul, vinnslan nær yfir yfir langt tímabil og hún hangir nokkuð illa saman sem heild. Stundum er slíkt kostur – þegar vaðið er skemmtilega úr einu í annað – en ekki í þessu tilfelli. Platan er nokkurs konar safnkassi, hvar er að finna bæði áhugaverðar hugmyndir og ekki, sumt nokkuð vel þróað en annað komið styttra á leið. Hugmyndafræðin á bakvið Two Trains er flókin. Samspil lestanna tveggja sem við Íslendingar höfum átt, Minør og Pionér, og tilvist þeirra tengd við sálarlíf Högna, innreið módernismans til Íslands og sjálfstæðisbaráttuna. Íslenski útskýringartextinn er hátimbraður og svo gott sem óskiljanlegur á köflum en enska útgáfan, sem finna má á vefsíðu Erased Tapes, útgefanda Högna, gengur betur upp.

Þegar best lætur næst fram tilkomumikil og djúp tónlist, með skírskotun í nútímatónlist og utangarðslistir. Gott dæmi er „Break-up“ sem er brotið upp um miðbikið með öflugum píanóslögum. Þetta kallar helst fram Scott Walker og þá mögnuðu tónlist sem hann hefur verið að gera síðustu ár, þá sérstaklega á The Drift og Tilt. Sama má segja um „Crash“ og „Parallel“ er áhrifaríkt í þögn sinni, það bærist varla og mann setur hljóðan einmitt vegna þess. Lokalagið, „Enn næða orð“, er fallegt, minnir á Talk Talk og sterk vísbending um sannan mátt Högna á tónlistarsviðinu og þann listamann sem hann hefur að geyma. Karlakórinn Fóstbræður á þá sterka innkomu. Lög eins og „Moon Pitcher“, „Shed Your Skin“ og „Komdu með“, sem eru „popplögin“ hérna rista hins vegar mun grynnra, og innan um eru skissur eins og „Dragðu mig“. Stundum hljómar platan eins og tvær plötur í einni. Tvær lestar er mögulega að vísa í það – eða ekki.

Hæfileikar

Nú háttar þannig til að Högni Egilsson er með allra mestu hæfileikamönnum íslenskrar tónlistar og plötuna ber að túlka sem nauðsynlega vegtyllu á vonandi langri og farsælli leið. Það vona ég að a.m.k. Högni er maðurinn og hann mun fara með himinskautum í framtíðinni. Það er bara þannig.

Tengdar fréttir

Tónlist

Högni á hestbaki yfir svarta sanda

Tónlist

Högni lagðist í bókagrúsk fyrir Paradísarheimt

Innlent

Högni setti All Out of Luck í nýjan búning