Borgarráð samþykkir aðgerðir gegn manneklu

08.10.2017 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarráð samþykkti á fimmtudag tillögu borgarstjóra að veita rúmlega 94 milljónir króna í aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð á leikskólum.

Í fundargerð kemur fram að þar af fari rúmar 57 milljónir í undirbúning tekinn í yfirvinnu, rúmar 33 milljónir í fjölgun starfsmannafunda og tæpar tólf milljónir í eingreiðslu til stjórnenda leikskóla. 5,7 milljónir króna verða veittar til heilsueflingar og rúmar 14 milljónir til að mæta auknu álagi og bæta liðsanda. 

Í fundargerð kemur fram að tillögurnar hafi verið unnar af teymi sem greindi ábendingar frá leikskólastjórum borgarinnar, umfang og kostnað. Á meðal þess sem leikskólastjórarnir lögðu til er að starfstími leikskóla verði frá klukkan 7:45 á morgnana til klukkan hálf fimm á daginn, vinnutími starfsmanna verði 35 stundir á viku, börnum verði fækkað á deildum án þess að stöðugildum verði fækkað á móti og að fjármagn verði tryggt mánaðarlega til að bæta laun starfsmanna. 

Í bókun áréttar borgarráð að ekki komi til greina að skerða vistunartíma barna í leikskólum hjá þeim fjölskyldum sem eru í fæðingarorlofi, en þær hugmyndir fengu mikla athygli í vikunni. 

Borgarráð samþykkti að vísa þremur tillögum til kjaradeildar og mannauðsdeildar borgarinnar til frekari meðferðar og úrvinnslu. Tillögurnar snúa að miðlægri afleysingarþjónustu, að störf aðstoðarleikskólakennara og deildarstjóra verði gerð eftirsóknarverðari og því að stytta vinnuvikuna.