Borðuðu hnetusmjör á aðfangadagskvöld

25.12.2017 - 16:22
Mikið hefur verið að gera í þeim búðum sem eru opnar í dag. Ljóst er að marga vantaði eitt og annað. Vissan mun má þó sjá eftir búðum. Þannig voru erlendir ferðamenn mest áberandi í Krambúðinni á Skólavörðustíg í Reykjavík þegar fréttamann og tökumann RÚV bar þar að garði síðdegis. Nokkru vestar í höfuðborginni, í Pétursbúð á Ránargötu, voru Íslendingar í miklum meirihluta. Báðar áttu búðirnar þó eitt sameiginlegt, þar mynduðust biðraðir meðan fólk beið eftir að greiða fyrir jóladagsinnkaupin.

Sem fyrr eru flestar búðir lokaðar á jóladag. Og sem fyrr lenda ýmsir í vandræðum. Skiptir þá ekki öllu hvort fólk uppgötvi að eitthvað gleymdist í innkaupunum fyrir jólin eða eins og er hlutskipti sumra ferðamanna: uppgötva að flestar búðir eru lokaðar frá því upp úr hádegi í gær og fram yfir mestu jólahelgina.

Kaupmennirnir í Pétursbúð, þar sem er alltaf opið um jólin, sögðu að þar væru sumir langt að komnir í innkaupunum. Þau höfðu fengið upphringingu frá Akranesi frá manneskju sem þurfti að komast í búð. Ferðamenn voru misvel undir jólin búnir og sagðist einn hafa gætt sér á samloku með hnetusmjöri og sultu í gærkvöldi en fagnaði mjög þegar hann fann opinn veitingastað í dag. Rætt verður við fólkið í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV