Bónus oftast með lægsta verð á bókum

20.12.2017 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd: Sarah Pflug  -  burst.shopify.com/Creative commo
Bónus reyndist oftast vera með lægsta verðið þegar ASÍ kannaði verð á jólabókum í vikunni. Hagkaup var með hæsta verðið á 36 titlum, Forlagið var 20 sinnum með dýrustu bókina og A4 var með hæsta verðið á tólf titlum. 

 

Þrír stærstu bóksalar landsins; Penninn-Eymundsson, Mál og Menning Laugavegi og Bóksala stúdenta, neituðu þátttöku í könnuninni.  

Forlagið og Nettó reyndust vera með mesta úrvalið en þar fengust 80 titlar af þeim 85 sem teknir voru fyrir í könnuninni.

Alls voru 57 titlar ódýrastir hjá Bónus af þeim 85 titlum sem könnunin náði til en Nettó var sextán sinnum með lægsta verðið. ASÍ beinir því þó til neytenda að hafa hugfast að verðlag bóka geti breyst ört á þessum árstíma. 

Verðmunur á bókum milli búða var almennt mikill en oftast á bilinu 20 til 60 prósent, segir í tilkynningu frá ASÍ.  Mesti verðmunurinn reyndist vera á bókinni Norrænar goðsagnir eftir Neil Gaiman, sem kostaði tæpar 2.800 krónur þar sem hún var ódýrust en tæpar 5.500 krónur þar sem hún var dýrust. Verðmunurinn nemur 97 prósentum. 

Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Nettó Mjódd, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Kringlunni, Costco og Heimkaupum.  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV