Bjarni gefur lítið fyrir gagnrýni ASÍ

09.01.2018 - 21:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skoðað verður hvort tilefni sé til að endurskoða fyrirkomulag persónuafsláttar á þessu kjörtímabili. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Hann gefur þó lítið fyrir gagnrýni ASÍ á skattbreytingar sem urðu um áramótin.

Alþýðusamband Íslands benti á það í yfirlýsingu í gær að við skattbreytingar um áramótin hafi ráðstöfunartekjur hátekjufólks aukist um 78 þúsund krónur en lág- og millitekjufólks um tæpar tólf þúsund krónur. Aukningin til handa hátekjufólki sé því sexfalt meiri en lág- og millitekjufólks. Í yfirlýsingunni gagnrýnir ASÍ að persónuafsláttur hafi um áramótin hækkað til samræmis við hækkun á verðlagi undanfarið ár, eða um tvö prósent, en efri tekjumörk í efra skattþrepi hækkað til samræmis við launavísitölu, eða um sjö prósent. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að þetta séu breytingar sem leiði af lögum og hafi ekki verið afleiðing sérstakrar ákvörðunar. Sjónarhorn ASÍ á málið sé mjög þröngt.
 
„En þegar maður veltir því fyrir sér hvernig launþegar í landinu eru að komast frá samskiptum við skattayfirvöld er auðvitað rétt að horfa á málin í aðeins víðara samhengi og veita því athygli að við höfum lækkað tekjuskattinn í neðra þrepinu um 3,3 prósentustig. Og það hefur auðvitað nýst niður. Við höfum sömuleiðis verið að auka tekjutengingar og beina stuðningskerfunum eins og barnabótunum meira til þeirra sem eru tekjulágir,“ segir Bjarni. 

„Og síðan er það hitt sem er auðvitað aðalfréttaefnið hér, að laun skuli hafa hækkað um rúm sjö prósent í fyrra. Það er auðvitað stórkostlegt gleðiefni sem menn mega ekki gleyma í umræðunni,“ segir Bjarni.

Á þessu kjörtímabili verði hins vegar skoðað hvort ástæða sé til að endurskoða persónuafsláttinn. „Hvernig við vinnum áfram með samspilið á milli persónuafsláttar og bótakerfanna. Og þar hafa ýmsar hugmyndir komið fram, meðal annars um útgreiðanlegan persónuafslátt eða persónuafslátt sem fjari út eftir því sem laun hækka. Þetta er allt sjálfsagt að skoða í þessu samtali sem við viljum eiga við vinnumarkaðinn,“ segir Bjarni.
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV