Bitcoin á mannamáli

13.02.2018 - 20:00
Bitcoin er í tísku og mikið til umræðu. Þessi græðir, hinn tapar, lögreglan varar við svindli en samt vita fæst okkar almennilega hvað bitcoin er. Bitcoin er rafmynt, peningur sem hægt er að senda um internetið. Stundum er talað um „cryptocurrency“, dulkóðaða mynt.

Sá sem þróaði bitcoin og þar með hugmyndina um rafmynt var Satoshi Nakamoti, sem enginn veit reyndar hver er og er líklega ekki til, heldur dulnefni einhvers eða einhverra. Tilgangur Satoshi var að búa til jafningjagreiðslukerfi, þar sem einhverjir tveir gætu átt viðskipti á netinu án viðkomu þriðja.

Enginn milliliður

Ímyndaðu þér að þú kaupir þér til dæmis kaffibolla á kaffihúsi. Þegar þú réttir greiðslukortið yfir borðið ertu ekki að afhenda peninga, heldur gerir bankinn það. En með stafrænan gjaldmiðil er ekki þörf á neinu banka eða greiðslukortafyrirtæki – eða seðlabanka og aðkomu ríkisins. 

Til þess að búa til bitcoin þarf tölvu sem vinnur úr ákveðnum færslum í gegnum flókið reiknidæmi. Í staðinn fyrir þessa reikniþjónustu fær tölvan bitcoin. Þetta er kallað námugröftur. Þeir sem stunda þennan námugröft eru ekki bara að búa til nýja bitcoin, heldur tryggja þeir viðskiptin með bitcoin um leið. 

Þetta er gert með því að halda skrá utan um öll viðskipti með bitcoin á ákveðnu tímabili. Skráin er kölluð kubbur. Námugrafarar staðfesta það sem skráð er í kubbinn og safna þeim upplýsingum saman í aðalbók, sem er í raun eins og risastórt excel-skjal sem aðgengilegt er öllum. 

Enginn einn stýrir þessu öllu heldur eru þúsundir tölva um allan heim tengdar saman í netverki og í samvinnu staðfesta þær hvaða viðskipti eru gild og traust. 

Takmörkuð auðlind

En magn bitcoin sem hægt er að vinna í námum er takmarkað við 1800 á dag. Eftir því sem þeim fjölgar sem stunda námugröft og fleiri tölvur eru notaðar til að staðfesta hver viðskipti, fær hver minna í sinn hlut.  Þeir sem ætla að komast yfir bitcoin í dag þurfa því ekki neina heimilistölvu, heldur heilu gagnaverin þar sem sérhannaður búnaður stundar námugröftin allan sólarhringinn. 

Samkeppnin verður sífellt meiri, líka vegna þess að magn bitcoin sem hægt er að ná í er takmarkað – bitcoin verða aldrei fleiri en 21 milljón, það var fest strax 2008. Bitcoin eru því takmörkuð auðlind, eins og gull. Eftir því sem fleiri vilja komast yfir bitcoin, verður virði hvers bitcoin meira. Þetta hljómar eins og gullgrafaræði nútímans – og á að vera framtíðin? Hvernig gengur það upp?

Í Kveik í kvöld er leitast við að svara þessum spurningum. Umfjöllunina má sjá í spilaranum hér að ofan.

Kveikur
Mynd með færslu
Ingólfur Bjarni Sigfússon
Fréttastofa RÚV