Bílstjórar hvíla sig í Skötufirði

07.01.2018 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Nokkrir vörubílstjórar hvíla nú lúin bein í bílum sínum í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi. Þeir komast ekki lengra vegna ófærðar.

Meðal þeirra sem þar eru núna er bílstjóri sem þurfti að dvelja við Svansvík, skammt frá Reykjanesi, í nótt eftir að hafa keyrt aftan á kyrrstæðan bíl. Sá bílstjóri komst í Skötufjörð í morgun, þökk sé bónda á svæðinu sem jafnframt vinnur fyrir Vegagerðina. Hann náði að ryðja stærri hluta af veginum um Ísafjarðardjúp.

Stór hluti af Djúpvegi er þó enn ófær. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er áfram lokaður vegna snjóflóðahættu og þá er Steingrímsfjarðarheiðin líka ófær þannig að ekki var hægt að aðstoða bílstjórann í nótt.

Ekki er ljóst hvenær hægt verður að opna vegina. Vindur á að ganga niður fljótlega og í kjölfarið á að hlýna í veðri.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV