Bikarglíma: Ásmundur sigraði þriðja árið í röð

13.01.2018 - 19:20
Ásmundur Hálfdan Ásmundsson stóð uppi sem sigurvegari í opnum flokki þriðja árið í röð þegar bikarglíma Íslands fór fram í gærkvöld. Í kvennaflokki sigraði Jana Lind Ellertsdóttir í fyrsta sinn.

Rétt eins og í fyrra voru erlendir keppendur áberandi, þeir töldu um helming allra keppenda og komu frá Skotlandi, Frakklandi, Svíþjóð, Danmörku og Ítalíu. Allt okkar besta glímufólk var meðal keppenda og var búist við spennandi keppni.

Ásmundur Hálfdán hafði algera yfirburði og sigraði tvöfalt, bæði í yfir 90 kg flokki og opna flokknum þriðja árið í röð. Hann sigraði allar sínar glímur en Einar Eyþórsson HSÞ og Sigurður Óli Rúnarsson Herði voru hans erfiðust andstæðingar.

„Þetta var góð keppni og gaman að vinna hana. Það var ágætis samkeppni núna, margir erlendir keppendur og bara skemmtilegt.“ segir Ásmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Rétt eins og Ásmundur sigraði Jana Lind tvöfalt í kvennaflokki. Hún stóð uppi sem sigurvegari í undir 60 kg flokki og í opna flokknum í fyrsta sinn. Jana þurfti að glíma úrslitaglímu við Kristínu Emblu Guðjónsdóttur og tókst henni að leggja Kristínu eftir tæplega fjögurra mínútna úrslitaviðureign. Sigurinn kom Jönu á óvart.

„Já hann kom á óvart, ég verð að viðurkenna það.  Ég hef stefnt að þessu lengi og ég æstefni á að toppa sjálfa mig á árinu.“ segir Jana.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður