Biðlar til eigenda frístundahúsa

30.10.2015 - 14:05
Mynd með færslu
Stykkishólmur  Mynd: N.Carioni  -  Wikipedia
Bæjarstjórinn í Stykkishólmi biðlar til eigenda frístundahúsa í bænum að færa lögheimili sitt til Stykkishólmsbæjar. Um tuttugu prósent fasteigna í Stykkishólmi eru í eigu fólks sem á lögheimili í öðrum sveitarfélögum.

Eigendur frístundahúsanna greiða ekkert útsvar til Stykkishólmsbæjar þótt þeir eigi þar sitt annað heimili og njóti þjónustu sem bærinn leggur til. Í bréfi Sturlu Böðvarssonar, bæjarstjóra, til eigenda húsanna segir hann að með því að breyta lögheimili sínu geti eigendur tekið þátt í og stuðlað að áframhaldandi uppbyggingu í bænum sem og góðri þjónustu á vegum Stykkishólmsbæjar.

Skessuhorn greindi frá þessu.

Í bréfinu segir Sturla: „Það blasir við að tekjustofnarnir sem sveitarfélögin hafa duga misvel til þess að þau eigi möguleika á að sinna lögboðnum verkefnum og þeim rekstri sem byggður hefur verið upp á ábyrgð þeirra." Jafnframt segir hann að þegar ný bæjarstjórn tók við, síðastliðið ár, hafi fjárhagur bæjarins ekki verið bjartur. Eftirlistnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi sett skilyrði um endurskipulagningu rekstrar og fjármála. Uppstokkun hafi átt sér stað og árangur hafi náðst þótt meira þurfi til. Heildartekjur árið 2014 voru 961,5 milljónir og rekstrarafgangur 35,8 milljónir. Heildarskuldir með lífeyrisskuldbindingum eru 1.387,2 milljónir í árslok 2014 en íbúatalan 1107 manns.

Bæjarstjóri telur bjarta tíð vera framundan í Stykkishólmi með miklum vexti í ferðaþjónustu, skelveiðum og vinnslu á þangi og þara úr Breiðafirði og að það sé eftirspurn eftir fasteignum. Til þess að bæjarsjóður geti sinnt þjónustu við bæjarbúa og þá sem eiga fasteignir í bænum þurfi tekjur bæjarsjóðs að aukast.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV