11.01.2018 - 13:50.Halla Harðardóttir.Víðsjá
„Einfaldar setningar, hljóð af ýmsum toga sem opna nýjar víddir eru framleidd lipurlega og skemmtilega af leikurunum, sem aldrei eru að þykjast vera börn heldur tekst þeim með einföldu öguðu atferli að vera þau sjálf en láta samt barnið sem leynist í okkur öllum birtast,“ segir María Kristjánsdóttir, sem fór að sjá tvær barnasýningar, Skúmaskot eftir Sölku Guðmundsdóttur og Ég get eftir Peter Engkvist.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Skúmaskot

Salka Guðmundsdóttir hefur verið afkastamikil sem leikskáld Borgarleikhússins og síðastliðinn laugardag birtist á litla sviðinu enn ein hugarsmíð hennar: barnaleikritið Skúmaskot. Þar ræður aftur ríkjum hinn fágæti húmor hennar og hugarflug eins og það birtist okkur svo ánægjulega á sínum tíma í Súldarskeri.

Verkið er ætlað börnum eldri en sjö ára og uppúr. Tvær systur eru þar í aðalhlutverkum: Rúna og Vala. Uppátæki þeirrar  yngri, Rúnu, í lífrænni baunabúð í Skeifunni endar í rifrildi milli þeirra systra sem leiðir til skuggalegrar ævintýraferðar  Rúnu einnar um undirheima  Skeifunnar.  Nokkurs konar hættulegs ratleiks,  undir stjórn  þeirrar ískyggilegu konu Krister Kristel. Á vegi þeirra um skúmaskotin verða undarleg dýr og enn undarlegri leyndardómsfullur húsvörður og endalausar ógnir . Sem sagt þemað er: sjálfstæðu , forvitnu barni tekst með djörfung að leysa erfið vandamál og lærir sitthvað á leiðinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið

Leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir og myndhöfundurinn Eva Signý Berger byggja upp ótrúlega myndræna heima jafnt ofanjarðar sem neðanjarðar.  Þarsem dósahlaði, skröltandi lyfta, tuskudýr og ýmsir einfaldir hlutir skapa jafnt leikræna spennu sem kómík.  Og með ákaflega góðri  lýsingu Juliette Louste  tekst þeim stöllum að gera litlasviðið  að stórum skuggalegum stað neðanjarðar  þar sem búast má við einhverju ískyggilegu handan horna og endalausra ganga sem leiða út í óvissuna.  Þar klífa  menn stiga, hrapa og fljúga. Þar kemur stöðugt eitthvað á óvart. Tónlist Axels Inga Árnasonar  og hljóðmynd hans og Ólafs Arnars Thoroddsen styðja listilega  alla framvindu leiksins.  Skiptingar sem eru flóknar virðast ekki vera það og renna vel inn í leikinn.

Hlutverkin eru öll vel skipuð og búningar Evu Berger og gervi Elínar S. Gísladóttur góð einkum þó gervi húsvarðarins. Leikkonurnar þrjár þær hæfileikaríku Þórunn Anna Kristjánsdóttir sem leikur aðalhlutverkið Rúnu, Maríanna Clara Lúthersdóttir sem leikur Krister Kristel og Vala Kristín Eiríksdóttir  í hlutverki eldri systurinnar Völu leika af mikilli orku og gleði frá upphafi til enda og margar eru skemmtilegar lausnirnar í leiknum.  En þær hefðu getað gert miklu betur, búið til  áhugaverðari persónur, systurnar báðar einsog sniðnar út úr gamalli klisju um hvernig leika skuli börn, einkum í raddbeitingunni. Maríanna Clara stundum líka fullýkt og eintóna. Það skrifast auðvitað á leikstjórann og er þekkt fyrirbrigði þegar ungir leikstjórar eru að stíga sín fyrstu skref einkum þegar umbúnaður allur er flókinn og fyrirferðamikill.  Það fer svo mikil orka í hann að þá verða góðir leikarar að lokum að redda sér sjálfir.  

En skemmtilegt  fannst mér  þetta leikverk og  leiksýning  og svo glettilega sprottin  úr veruleika okkar, menningu. Fylgdarmanni mínum tólf ára, fannst það líka, persónan sem heillaði hann mest var húsvörðurinn. Honum þótti einnig, þó fámáll sé stundum,  sérstök ástæða til að minnast á að tónlistin væri góð og svo taldi  hann að höfundurinn ætti að skrifa  bók um sama efni. Ég kem því hér með á framfæri.

Ég get

Í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu, var daginn eftir, sunnudag, frumsýnt sænskt barnaleikrit eftir Peter Engkvist, ætlað fyrir börn tveggja til fimm ára gömul. Þar kristallaðist á margan hátt munurinn á íslenskri og sænskri barnamenningu. Eða kannski réttara sagt hve sænskt leikhús hefur unnið lengi og markvisst að því að byggja upp barnaleikhús.  Verk Engquist er pedagógískt, mikil áhersla á  ró og fegurð hlutanna í bland við fínlegan húmor. María Thelma Smáradóttir og Stefán Hallur Stefánsson, leika tvö ónefnd börn undir stjórn leikstjórans Björns Inga Hilmarssonar en sá góði leikari okkar hefur undanfarin ár starfað við barnaleikhús Engkvist í Stokkhólmi .

Stefán Hallur og María Thelma klædd í fallega hannaða búninga Leilu Arge,  koma fram í anddyrið bjóða börnin hlýlega velkomin, leiða þau inn í salinn og sjá svo til þess að engir stórir risar setjist fyrir framan þau sem gerist reyndar allt of oft í íslensku leikhúsi. Þegar leikurinn hefst er gott samband komið milli sviðs og salar. Leikmynd er stórt ferkantað ljóst teppi , með munstri úr línum sem mynda ferhyrninga og þríhyrninga og minna á gamla leiki um boð og bönn strika. Í bakgrunni er raðað upp einlitum brúnum pappakössum í ýmsum stærðum svo og helling af  könnum  og vatnsfötum úr blikki sem minnir í fyrstu í heild sinni á sorgmætt kúbískt myndverk.

Svo hefst leikurinn um það sem er mitt og þitt og okkar. Nokkurs konar æfing fyrir börn í að vinna saman og um leið að uppgötva hvernig má í einföldustu hlutum svo sem pappakassa finna lítil ævintýri, heyra fuglasöng , fela sig í þeim og breyta í alls kyns fígúrur.  Einfaldar setningar, hljóð af ýmsum toga sem opna nýjar víddir eru framleidd lipurlega og skemmtilega af leikurunum, sem aldrei eru að þykjast vera börn heldur tekst þeim  með einföldu öguðu atferli að vera þau sjálf en láta samt barnið sem leynist í okkur öllum birtast.

Þetta voru ánægjulegar þrjátíuogfimm mínútur. Rússneskur barnamenningargúru, Kornej Tjukovskí hefur haldið því fram að aldrei sé  maðurinn meira skapandi en á aldrinum  þriggja til fimm ára. Foreldrar, afar og ömmur ættu því að streyma í Kúluna með börnin því þar eru öll skilningarvit þeirra örvuð.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Margar spurningar – lítið um svör

Klassísk tónlist

Tosca á tímum fasismans

Leiklist

Heitar kartöflur á flugi

Leiklist

Fáfræði er styrkur