Bændur margir ósammála forystunni

12.10.2017 - 09:03
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðaráðherra og nýr formaður Viðreisnar segir að bændur séu margir ósammála bændaforystunni. Þorgerður Katrín tók við sem formaður af Benedikt Jóhannessyni í gær. Benedikt steig til hliðar vegna ummæla sem hann viðhafði um ríkisstjórnarslitin sem og vegna stöðu flokksins sem hefur komið illa út úr skoðanakönnunum og fékk rétt um þrjú prósent í nýjustu könnuninni.

Gustað hefur um Þorgerði Katrínu í landbúnaðaráðuneytinu. Hún segir að Viðreisn vilji breyta kerfinu í þágu bænda. Hún var spurð að því í Morgunútvarpinu hvort Viðreisn væri í stríði við bændur, þeir væru ekki sammála um að breytingarnar væru í þeirra þágu.  

Bændur og bændaforysta er ekki það sama

„Ég hef oft reynt að aðskilja þetta það er annars vegar bændaforystan og hins vegar bændur. Ég hef verið í miklum samtölum við bændur, bændur hafa verið að hringja í mig senda mér tölvupósta, persónuleg bréf þar sem þeir eru algerlega bullandi ósammála því sem bændaforystan hefur fram að færa  og ég held að það sé eitthvað sem menn þurfa að hugsa um.“ 

Þorgerður Katrín segir að hún hafi lagt áherslu á varðandi sauðfjárbændur að menn horfist í augu við staðreyndir sem sé offramleiðsla. Ná þurfi jafnvægi á framleiðslunni og búa þurfi til þannig umhverfi  þeir sauðfjárbændur sem eru í greininni geti lifað af að þetta verði ekki allt of mikið hokur. 

„Og ég spyr þegar þessi viðfangsefni og vandamál koma upp aftur og aftur má þá ekki tala um það að breyta kerfinu þanng að það verði í þágu bænda og í þágu neytenda? Ég er sannfærð um það að ef við tölum meira á þessum forsendum bændur og neytendur þeir eru samherjar ekki andstæðingar þá fáum við miklu betra kerfi út úr þessu.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi