Austur-Evrópubúar þreyttir á að fá lélegri mat

01.01.2018 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Public domain image
Stjórnmálaleiðtogar í Austur-Evrópu eru orðnir langþreyttir á því að borgurum ríkja þeirra sé boðið upp á miklu lélegri vörur en íbúum ríkja í Vestur-Evrópu. Evrópusambandið hefur nú lofað að ganga í málið.

Fiskifingur í Slóvakíu innihalda aðeins 58 prósent af fiski. Sami pakki af fiskifingrum í Austurríki inniheldur 65 prósent af fiski. 

Á mozzarella-pizzu frá sama framleiðanda eru 7 sneiðar af osti í Vestur-Evrópu en bara fimm sneiðar í verslunum í Austur-Evrópu. 

Það er meira kakó í Nutella-súkkulaðismjöri í Vestur-Evrópu en í Austur-Evrópu og meira af jarðarberjum í jógúrt í vestrinu en austrinu. Og svona mætti lengi telja.

Í nýlegri úttekt þýska tímaritsins Spiegel segir að Austur-Evrópubúar séu orðnir langþreyttir á þessum matvörukynþáttafordómum eins og pólska dagblaðið Gazeta Prawna kallaði fyrirbærið á dögunum. Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu sagði í ræðu í sumar að ef matvöruframleiðendur tækju sig ekki á gagnvart þeim 103 milljónum borgara Evrópusambandsins sem þyrftu að láta sér lynda lélegri vörur í verslunum þá yrði einfaldlega gripið til aðgerða gagnvart fyrirtækjunum. Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, segir að þetta sé eitt stærsta hneyksli síðari tíma og landbúnaðarráðherra Tékklands segir matvælafyrirtæki koma fram við neytendur Austur-Evrópu eins og þeir séu öskuhaugar álfunnar.

Evrópusambandið tók loks við sér í haust og framkvæmdastjóri neytendamála í ESB lét gera allsherjarúttekt á innihaldi matvöru í verslunum í ríkjum Austur-Evrópu. Hún sýndi að gagnrýnendur höfðu heilmikið til síns máls. Þá var sett á laggirnar rannsóknarnefnd til að leita skýringa á misræminu. Nefndin hefur hitt fjölda framleiðenda á síðustu mánuðum. Mörg fyrirtæki hafa þegar látið sér segjast og samræmt framleiðslu sína, aðrir þrjóskast við og halda því fram að neytendur í Austur-Evrópu vilji meiri fitu, meiri sykur, minna kakó í matinn sinn en íbúar í Vestur-Evrópu. Rannsóknarnefndin hefur gefið það ákveðið út að fáist ekki fullnægjandi skýringar á misræminu og það lagað eigi matvöruframleiðendur málsókn yfir höfði sér.
 

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV