Átta verið reknir frá þremur íþróttafélögum

13.01.2018 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnst átta dæmi eru um að menn hafi verið reknir úr íþróttafélögum á undanförnum árum vegna ósæmilegrar hegðunar eða misbeitingar. Oftast hefur gerandinn getað starfað áfram í öðrum íþróttafélögum. Fyrrverandi framkvæmdastjóri tveggja íþróttafélaga segir mikilvægt að ÍSÍ haldi utan um miðlægt kerfi sem taki á slíkum brotum.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að undanfarin ár hafi komið upp fimm mál hjá KR, þar sem mönnum hefur verið vísað frá félaginu vegna óeðlilegra samskipta milli kynja. Að sögn Stefáns Arnarsonar, íþróttafulltrúa KR, voru þetta ekki nauðgunarmál, en í tveimur tilfellum voru brotin kærð til lögreglu.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Vals og Aftureldingar, Jóhann Már Helgason, greinir frá því á Facebook að á sex ára tímabili hafi hann fengið inn á borð til sín fjögur tilfelli þar sem þjálfari, leikmaður eða starfsmaður félagsins var sakaður um kynferðisbrot eða ósæmilega hegðun. Brotin voru misalvarleg. Í tveimur tilfellum var brotið gegn stúlkum sem voru undir lögaldri en gerendur voru fullorðnir. Í þremur af þessum málum var geranda vikið frá félaginu og í einu tilfelli hætti hann sjálfur um leið og málið komst upp.

Gátu starfað áfram hjá öðrum félögum

Jóhann Már segir að það hafi hafi valdið sér vonbrigðum hvernig tekið var á málunum innan íþróttahreyfingarinnar í framhaldinu. Gerendur hafi fengið að starfa áfram innan íþróttageirans hjá öðrum félögum eftir að brot þeirra komust upp og einn sé reglulega fenginn til að tjá sig í fjölmiðlum um sína íþróttagrein. Jóhann Már segir mikilvægt að brugðist sé við frásögnum íþróttakvenna af festu, og að Íþróttasamband Íslands haldi utan um miðlægt kerfi sem taki á slíkum brotum.