Ástarbréf til táningsára raftónlistarinnar

Bicep
 · 
Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Ástarbréf til táningsára raftónlistarinnar

Bicep
 · 
Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.01.2018 - 10:47.Davíð Roach Gunnarsson.Lestin
Norðurírski raftónlistardúettinn Bicep fangar anda uppvaxtarára raftónlistarinnar af einstöku öryggi, fagmennsku og innblásinni ást á sinni fyrstu breiðskífu sem er samnefnd sveitinni.

Árslistar eiga það til að vera einhæfir og sömu lög raða sér oft í efstu sætin. En útvarpsþátturinn Straumur valdi sem besta lag ársins, lag sem vart sást á öðrum listum, „Glue“ með hljómsveitinni Bicep, auk þess að velja plötu sveitarinnar þá næstbestu á árinu.

Í myndbandi lagsins lætur miðaldra fyrrum djammari hugann reika um rave-slóðir æsku sinnar.

Lagið er kennt við lím og það er svo sannarlega pikkfast við taugakerfið mitt. Það eru mörg atriði sem gera þetta að besta lagi ársins en eitt þeirra sterkasta er fortíðarþráin. Nostalgían er ein rammasta taugin í mannskepnunni sem þegar verst lætur brýst út í „tribute“-tónleikum og 300 gramma vínyl-endurútgáfum af pabbarokki. En þegar hún er matreidd af eins miklu listfengi og írski dúettinn Bicep gerir í laginu „Glue“, og á sinni fyrstu breiðskífu, rís hún upp úr fortíðarþránni og finnur sér stað í tímaleysi fegurðarinnar. Það er söknuður sem sáldrast úr taktinum og laglínan er löðrandi í melankólíu. Þetta er ljúfsárt tregatekknó og þó það sé ósungið vekur það upp jafn sterkar tilfinningar og allra fallegustu ballöður geta gert. Ég leyfi mér að efast um lífsmörk þeirra sem hrífast ekki með þegar angurvært óp ryður sér leið inn í lagið um miðbik þess.

Sagnfræðingar danstónlistarinnar

Bicep eru írsku æskuvinirnir og plötusnúðatvíeykið Andy Ferguson og Matt McBriar sem stofnuðu tónlistarbloggið „Feel My Bicep“ árið 2009. Það var tileinkað gleymdum diskólögum, Chicago-hústónlist, Detroit-tekknói og Ítaló-raftónlist. Þeir eru plötusnúðar, upptökustjórar, tónlistarbloggarar en ekki síst sjálflærðir fræðimenn í sögu danstónlistarinnar. Rætur nútímadanstónlistar liggja hjá tæknikrötunum í Kraftwerk og rafrænu diskói Giorgio Moroder og Donnu Summer. En stærsta þroskaskeiðið, þegar raftónlistin byrjaði að blómstra og verða vinsæl, var í byrjun tíunda áratugarins í Bretlandi.

Future Sound of London var í framlínunni í raftónlistarbyltingu 10. áratugarins.

Þegar hljómsveitir eins og The Orb og Future Sound of London blönduðu saman gömlum trommutöktum, náttúruhljóðum við til dæmis hljóðbúta úr Blade Runner og bara hvað sem hugmyndaflugið bauð upp á hverju sinni. Þar sem teknó og ambient mættust á miðri leið. Það var þá sem rave-hreyfingin myndaðist og var í framlínu andmenningarinnar samtímans. Ólögleg partý í ósamþykktum iðnaðarhúsnæðum eða undir berum himni þar sem raftónlist og e-pillur leiddu fólk saman í algleymissælu þúsunda dansandi sálna sem líkömnuðust í leiðsluástandi. Ekki ólíkt helgisiðum fornra ættbálka, þar sem plötusnúðurinn var töfralæknirinn sem leiddi athöfnina yfir á æðra vitundarstig.

Ýmislegt af plötu Bicep minnir á Selected Ambient Works 85-92 sem Aphex Twin gaf út 1992.

Á þessum tíma var Mozart raftónlistarinnar, Aphex Twin, að slíta barnsskónum með sýrukenndu sveimtekknói, Autechre mölvaði skilrúmið milli melódíu og ryþma og Goldie var að leggja grunninn að jungle og drum’n’Bass. Massive Attack og Tricky tóku vinstri snúning á amerísku hiphopi svo úr varð helbreskt trip hop. Þetta var líka áður en Moby byrjaði að semja tónlist fyrir jógatíma og auglýsingar, þegar hann tók Twin Peaks hljóðrás Angelo Badalamentis og umbreytti í Rave-þjóðsönginn Go. Gróskan var því sem næst taumlaus og tíðarandinn öskraði á óhefta tilraunamennsku.  

Allt var þetta að gerast í Bretlandi á fyrstu árum tíunda áratugarins og Bicep fá sér ekki bara sopa úr þeim brunni heldur stinga sér ofan í hann á sinni fyrstu breiðskífu. Þeir flakka óhikað um víðan völl og smakka hér og þar en þrátt fyrir það verður platan aldrei sundurlaus óskapnaður. Breiðskífan hefur heldur aldrei sögulega séð verið helsti vettvangur danstónlistarinnar, heldur smáskífan í höndum plötusnúða, en Bicep tekst með uppröðun og auga fyrir smáatriðum að skapa rennsli sem virkar jafn vel á rave-i og í heyrnartólunum þínum heima í stofu.

Sterk tilfinning fyrir melódíu

Þó tónlistin á plötunni vitni mikið í fortíðina þá hljómar hún samt aldrei gamaldags. Þrátt fyrir mjög mismunandi tempó og hljómgeira þá hangir platan saman sem órofa heild eins og klippiverk eftir Basquiat. Það eru smáatriði eins og samsetning og áferð, púls sem þú finnur ekki en veist að er til staðar, andi og hugmyndafræðileg þoka sem liggur yfir vötnum en erfitt er að útskýra með orðum.

Eitt af því sem gerir plötuna jafn sterka og raun ber vitni er sterk tilfinning tvíeykisins fyrir melódíu. Angurværu píanóhljómarnir í „Ayer“ bera þess sterklega vitni og ekki síður hikstandi synþabassinn í „Vale“ sem er líka eina sungna lagið á plötunni. Þeir Andy Ferguson og Matt McBriar hafa þó ekki síður sans fyrir því sem er líklega mikilvægast í danstónlist, sem er ekki lagasmíðar eða laglínur í einföldustu skilgreiningu þessara fyrirbæra, heldur áferð og uppbyggingar. Að bæta hægt og hægt inn fleiri hljómum og áslætti í stigmögnun fram að sprengingunni, að taka út taktinn til áhersluauka þegar lagið virðist vera að ná hápunkti, aðeins til að byggja það upp aftur og fara með það upp á ennþá hærri fjallstind en áður.

Það er margt í þessu hjá strákunum og mikið undir. Sýrutekknó, ambient, Detroit-teknó, hiphop, Berlínar-teknó, Chicago-hús og gáfumannadanstónlist eru meðal þeirra geira sem koma við sögu. Samt liggur sami skynörvandi þráðurinn í gegnum öll herlegheitin: það er leitin að næstu hæð, að útvíkka huga, æðar og augasteina, að dansa þar til vitundin gufar upp, að stara í augun á morgunsólinni, að fara í sleik við stelpuna sem þú hittir fyrir hálfri mínútu, að leggjast í grasið því að snertingin ertir þig á akkúrat réttan hátt, leysast upp, verða partur af taktinum, finna hverju einustu tíðni lagsins umfaðma þig og óska þess heitast að þær sleppi aldrei takinu.

Skáldaðar minningar

Einhvern veginn svona ímynda ég mér rave-veislur í upphafi tíunda áratugarins í Bretlandi sem ég upplifði þó aldrei sjálfur. En sterkasta nostalgían er einmitt oft fyrir fortíð sem er ekki okkar eigin. Að hlýða á eða lesa frásagnir annarra getur skapað slík hughrif að ímyndaða minningin ber veruleikann ofurliði og færir upp á goðsögulegan stall. Það eru slíkar skáldaðar minningar um rave-menningu fyrri tíma sem tónlistin á samnefndri breiðskífu Bicep vekur upp í mér, tilfinning um að ég hafi verið partur af risavaxinni alsælli mannmergð, dansandi í morgunsárinu við sólarupprás út á enskum akri.

Ég var ekki þar.

En góð list getur ferðast með þig hvert sem er og er ekki bundin af tíma, rúmi eða raunveruleika. Á sinni fyrstu plötu eru Andy Ferguson og Matt McBriar í Bicep eins og hlekkir í órofinni keðju raftónlistarsögunnar og brúarsmiðir milli nostalgíu, nútíma og framtíðar. Og það er ómögulegt annað en að hrífast með.

Tengdar fréttir

Tónlist

Ögrandi skapari fer hálfa leið út úr skápnum

Tónlist

Stígur skrefið til fulls úr skugga föður síns

Popptónlist

Kafað ofan í hyldýpi kolsvartrar karlmennsku

Tónlist

LCD Soundsystem – játningar miðaldra hipsters