Assange orðinn Ekvadori

Mynd með færslu
 Mynd: NN  -  Twitter
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, sem verið hefur í sjálfskipuðu stofufangelsi í ekvadorska sendiráðinu í Lundúnum árum saman, er orðinn ekvadorskur ríkisborgari. Frá þessu er greint í mörgum fjölmiðlum í Ekvador, og samkvæmt heimildarmönnum blaðsins El Universo gerðist þetta skömmu fyrir jól. Fréttastofa sænska ríkisútvarpsins fékk staðfestingu á þessu þegar tíðindamenn hennar rýndu í skattskrá Ekvadors.

Þetta breytir því ekki, að enn er uppi pattstaða í máli Assange, sem óttast að verða handtekinn um leið og hann stígur fæti út fyrir dyr sendiráðsins. Þótt Svíar hafi fellt niður framsalsbeiðni og ákærur á hendur honum, eru nefnilega enn útistandandi kærur í Bretlandi, þar sem hann rauf skilorð þegar hann flýði á náðir ekvadorska sendiráðsins.

Það er ekki lengra síðan en á þriðjudag, að utanríkisráðherra Ekvadors bað um hjálp til að miðla málum og leysa pattstöðuna. Fóru ekvadorsk stjórnvöld fram á að Assange yrði veitt diplómatísk friðhelgi, svo unnt verði að flytja hann til Ekvadors án þess að hann eigi á hættu að verða handtekinn á leiðinni á flugvöllinn. Bresk stjórnvöld höfnuðu þeirri beiðni.

Sjálfur hefur Assange ekki tjáð sig um þessar breytingar á ríkisfangi, nema að því leyti að hann birti mynd af sér á Twitter í treyju ekvadorska fótboltalandsliðsins. 

Assange sótti um hæli í sendiráði Ekvadors í Lundúnum árið 2012. Það gerði hann eftir að sænsk dómsmálayfirvöld óskuðu eftir framsali hans vegna gruns um að hann hefði framið gróf kynferðisbrot gegn tveimur sænskum konum þegar hann dvaldi í Svíþjóð sumarið 2010. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV