ASÍ: Hátekjufólk fær meira en lágtekjufólk

08.01.2018 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Steinunn Þórhallsdóttir  -  RÚV
Alþýðusamband Íslands segir að við skattbreytingar um áramót hafi ráðstöfunartekjur hátekjufólks aukist um 78 þúsund krónur en lág- og millitekjufólks um tæpar tólf þúsund krónur. Aukningin til handa hátekjufólki sé því sexfalt meiri en lág- og millitekjufólks.

 

Í tilkynningu gagnrýnir ASÍ að persónuafsláttur hafi um áramót hækkað til samræmis við hækkun á verðlagi undanfarið ár en efri tekjumörk í efra skattþrepi hækkað til samræmis við launavísitölu. 

ASÍ segist ítrekað hafa  vakið athygli á því að þetta fyrirkomulag leiði kerfisbundið til aukins tekjuójafnaðar. Hækkun persónuafsláttar hafi numið 1,9 prósentum og hækkað úr 52.907 krónum í tæpar 53.895 þúsund krónur. Hækkunin nemur 988 krónum. Á sama tíma hafi tekjumörk í efra skattþrepi hækkað um 7,1 prósent og greiðist tekjuskattur í efra skattþrepi nú af tekjum yfir 893.713 krónur á mánuði í stað 834.707 króna áður. 

ASÍ segir að persónuafsláttur hafi meiri áhrif á skattbyrði eftir því sem tekjur eru lægri og myndi í raun skattleysismörk að óbreyttu skatthlutfalli. Tekjumörk í efra skattþrepi hafi hins vegar aðeins áhrif á skattbyrði tekjuhærri hóp. ASÍ segir að því megi segja að tekjumörkin í fyrsta þrepi, skattleysismörkin, hafi um áramót hækkað úr 143.224 krónum á mánuði í 145.899 krónur á sama tíma og tekjumörkin í efra þrepi hækkuðu úr 834.707 krónum í 893.713 krónur. 

Ráðstöfunartekjur hátekjufólks hafi því aukist meira en lág- og millitekjufólks um áramótin. Þannig hafi staðgreiddur tekjuskattur og útsvar hjá einstaklingi með 350 þúsund krónur í mánaðarlaun lækkað um áramót úr 71.211 krónum á mánuði í 70.223 krónur.  Það eru 988 krónur á mánuði eða 11.800 krónur á ári.
Staðgreiddur tekjuskattur og útsvar þeirra sem hafa yfir 893.713 krónur á mánuði lækkar hins vegar um 6.476 krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur þeirra hækka því um ríflega 77.700 krónur á ári. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV