Allt að 100 drukknuðu undan Líbíuströnd

10.01.2018 - 02:28
epa06427928 Rescued migrants arrive to Motril's Port in Granada, southern Spain, 09 January 2018. Sixty migrants were rescued sailing on a small canoe near Alboran Island on Mediterranean Sea.  EPA-EFE/ALBA FEIXAS
Þetta fólk var lánsamara en það sem greint er frá í fréttinni hér að neðan, því spænskir sjóliðar björguðu öllum 60 sem hírðust um borð í smábát, miðja vegu milli Spánar og Marokkó á þriðjudag.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Allt að eitt hundrað manns er saknað eftir að bátskriflið sem þau voru í sökk skammt undan Líbíuströnd síðdegis á þriðjudag, samkvæmt upplýsingum frá líbíska flotanum. Eftirlifendur upplýstu björgunarliðið um að vel á annað hundrað flótta- og farandfólks hafi verið um borð í uppblásinni gúmmítuðrunni þegar hún sökk. Ayoub Kacem, talsmaður líbíska flotans, upplýsir að 17 hafi verið bjargað úr sjónum, körlum og konum.

Er þetta annað skiptið á árinu sem fjöldi fólks drukknar skammt frá Líbíuströndum. Um helgina drukknuðu minnst 64 þegar gat kom á ofhlaðinn gúmmíbát með um 150 manns um borð. Báturinn maraði í hálfu kafi þegar skip ítölsku strandgæslunnar kom að og bjargaði 86 manns, sem náðu að halda sér á floti með bátnum.

Yfir 2.800 drukknuðu í Miðjarðarhafinu á síðasta ári svo staðfest sé, er þau freistuðu þess að komast frá Líbíu til Evrópu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV