Allir kútar Orku náttúrunnar teknir úr umferð

17.07.2017 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
22 sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið kúta Orku náttúrunnar úr umferð, að tilmælum stofnunarinnar. Umræða um öryggi kútanna skapaðist á samfélagsmiðlum í gær.

Forsvarsmenn Orku náttúrunnar ákváðu að láta taka kútana úr umferð eftir að færsla Óla Vals Þrastarsonar barst þeim til eyrna. Óli Valur vakti athygli  á því á Facebook að tæplega þriggja ára gamall sonur hans hefði marað í hálfu kafi eftir að annar kúturinn hafði slitnað af honum. Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar, segir mikilvægt að fólk hafi augun opin og láti vita ef eitthvað mætti betur fara.

Hún þakkar Óla fyrir ábendinguna og segir að málið sé litið grafalvarlegum augum. „Við tókum status-inn sem Óli Valur setti á Facebook grafalvarlega og fórum strax í að taka kútana úr umferð. Þetta eru 22 sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum sem við gáfum sundkúta og við höfðum samband við þær í gær og fylgdum því eftir í tölvupósti og síðan með heimsókn í þær sundlaugar sem við komumst yfir til að vera viss um að kútarnir yrðu strax teknir úr umferð.“

Sundkútarnir komi frá traustum framleiðanda en nú þurfi að skoða betur hvað fór úrskeiðis. „Sundkútarnir eru frá framleiðanda sem hefur áður framleitt kúta fyrir sundlaugar hér á íslandi og í mörg ár. Þeir eru með CE merkingu en hún er til marks um að framleiðandi ábyrgist að varan uppfylli grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem kveður á um í tilskipunum Evrópusambandsins og við þurfum bara að skoða málið. Við vildum bregðast hratt og örugglega við í gær þegar við fengum þessa ábendingu og síðan förum við að skoða framleiðsluferlið,“ segir Áslaug. 

Neytendastofu bárust ábendingar um rifna kúta á sundlaugarbökkum fyrir tveimur vikum. Áslaug segir að þá hafi Neytendastofa sent fyrirspurn til Orku náttúrunnar. „Við höfðum þá strax samband við samstarfsfólk okkar í sundlaugunum og samkvæmt starfsfólki sundlauga hafi borið á því að gestir sundstaða hafi rifið kútana í sundur til þess að nota þá sem höfuðhvílur. Þetta er þekkt vandamál og hefur verið undanfarin ár. Við hófum þegar í stað að láta útbúa sérstakar höfuðhvílur og leiðbeiningar með kútunum til þess að tryggja það að það væri ekki verið að nota þá í öðru skyni en ætlast var til. Nú rifnar kúturinn við notkun og þá fórum við strax í að taka þá úr umferð.“

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV