Mynd með færslu
03.02.2018 - 11:47.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Önnur plata Legend, Midnight Campion, er risaskref fram á við fyrir sveitina og eitt af því allra besta sem út kom á síðasta ári. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Þegar maður hlustar á frábæra plötu Legend, Midnight Champion, streyma eftirfarandi nöfn og hughrif yfir mann: Vangelis, Killing Joke (þá er ég sérstaklega að hugsa um seinni tíma verk eins og Pandemonium), Rammstein (fyrsta platan), Depeche Mode (Black Celebration), iðn- og vélasveitir eins og Skinny Puppy og Front Line Assembly. NIN og Duran Duran. Sisters of Mercy og Bauhaus. Allt er þetta svo bakað í ofni frá 1986, afurðin tekin út og henni velt upp úr séríslensku Krummakryddi. Gjörðu svo vel. Bragðið er ómótstæðilegt!

Mynd með færslu

Verkefni

Það er ánægjulegt að heyra hvernig þetta verkefni Krumma Björgvinssonar og Halldórs Á. Björnssonar er að þróast. Um mikið framfaraskref er að ræða, samanborið við frumburðinn, Fearless (2012). Platan er fyllri, hljómbetri, lagasmíðar sterkari og allt er þetta bara á öðru stigi einhvern veginn. Fullorðins. Ekki að þetta komi á óvart þannig en Krummi er hæfileikabúnt og framúrskarandi tónlistarmaður. Tónlistin er í honum. Og þúsundþjalamennska hans þar er tilkomumikil. Hann getur sungið Dylan ballöðu með föður sínum, búið til kolsvart rafpönk með Döpur, sungið rokk og harðkjarna með Mínus, spilað kántrískotna tónlist í The Moody Company, farið inn á eyðimerkurrokklendur með Esju ... o.sfrv. Og er þá ekki allt upptalið!

Þessi ríka innsýn í alls kyns fettur og brettur rokktónlistarformsins ásamt sögulegri þekkingu (ég veit að Krummi veit nákvæmlega hvað ég er að vísa í með þessari nafnasúpu sem þið fenguð í upphafi) stuðlar að þessu glæsta verki Legend. Platan hefst með dramatískum nótum, „Cryptid“ hefði hæglega getað opnað nýjustu Blade Runner myndina (eða þá næstu?), en svo tekur við dómsdagsleg rödd Krumma, hvar hann tónar eins og æðsti prestur í einhverri framtíðarmyndinni. Kalt slagverk fer í gang, drynjandi gítarar og lagið er keyrt áfram af öryggi. Söngur Krumma er eftirtektarverður og plötunni mikill styrkur. Það á ekki að koma á óvart að hann sveiflar sér á milli undurblíðra melódía og groddalegri spretta eins og að drekka vatn. Röddin er sterk, hann veit nákvæmlega hvaða söngmelódíur hæfa og hverjar ekki og stýrir málum eins og hershöfðingi. Platan er þung og hlaðin en það er birta líka, sjá t.d. hið dásamlega „Adrift“, ballaða sem togar listavel í hjartastrengi. Textar eru í takt við mikilúðlega stemningu plötunnar, í „Frostbite“ er talað um „There was a time when I was a happy child / and running wild“. Ókennileg hryggð og nostalgía svífur yfir. Hljómur plötunnar er þá svakalegur; knýjandi, þungur, drífandi, bjartur og tær. Hann einn myndi nægja til að fanga hlustendur.

Frábær

Midnight Champion er algerlega frábær plata.  Heilsteypt og einkar sannfærandi, unnin af tilfinnanlegri einlægni og innlifun. Til hamingju strákar!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Midnight Champion

Tónlist

Íslensk alþýðutónlist

Tónlist

Eitt sinn pönkari, ávallt pönkari

Tónlist

Fjallið kemur til Egils